Morgunblaðið um GUÐAVEIGAR: Ódýrt og heiðarlegt afþreyingarefni sem selur

Takturinn er góður í byrjun en brandararnir oft aðeins of einfaldir, segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Guðaveigar Þorkels Harðarsonar og Arnar Marinós Arnarsonar.

Jóna Gréta skrifar:

Guðaveigar er ný íslensk kvikmynd eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel Harðarson, en þeir eru einnig sameiginlegir leikstjórar og handritshöfundar Síðustu veiðiferðarinnar (2020) og Allra síðustu veiðiferðarinnar (2022), sem eru feykivinsælar myndir hérlendis. Örn Marinó og Þorkell framleiða eigin myndir en einnig margar gamanmyndir eftir aðra leikstjóra eins og til dæmis Fullt hús (Sigurjón Kjartansson, 2024), Saumaklúbbinn (Gagga Jónsdóttir, 2021) og Ömmu Hófí (Gunnar Björn Guðmundsson, 2020). Allar þessar myndir eru ódýrar en skemmtilegar gamanmyndir sem gleðja Íslendinga í skammdeginu og því er ekki furða að Íslendingar hópist í bíó á myndirnar.

Eins og fyrri myndir er Guðaveigar ekki dæmi um gæðamynd heldur er hún frekar ódýrt og heiðarlegt afþreyingarefni sem selur. Kvikmyndin, sem var frumsýnd á annan í jólum, fjallar um fjóra presta og státar af glæsilegum leikarahópi, en guðsmennirnir eru leiknir af Hilmi Snæ Guðnasyni, Halldóri Gylfasyni, Þresti Leó Gunnarssyni og Sverri Þór Sverrissyni. Prestarnir halda til Rioja á Spáni á vegum Þjóðkirkjunnar í leit að nýju messuvíni sem á samkvæmt biskupi (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) að vera bæði óáfengt og vegan. Prestarnir hafa hins vegar annað í hyggju og ferðin breytist fljótlega í djammferð sem fer úrskeiðis.

Takturinn í kvikmyndinni er góður í byrjun. Áhorfendur fá að skyggnast inn í hefðbundinn starfsdag hjá prestunum en þeir virðast ekki ná að plumma sig í nútímasamfélagi. Fáir mæta í messurnar þeirra og táningarnir líta ekki upp úr símanum í fermingarfræðslunni. Þessi utanlandsferð kemur því eins og himnasending inn í líf þeirra. Ferðin byrjar hins vegar ekki vel, bílstjórinn þeirra mætir ekki í flugið heldur sendir í staðinn barnabarnið sitt, Maríu (Vivian Ólafsdóttir), og í fluginu drekkur hún sig svo fulla að prestarnir þurfa að keyra hana í hjólastól á hótelið. Þetta er hins vegar aðeins byrjunin á skrautlegri ferð og því er óhætt að segja að málshátturinn „fall er fararheill“ eigi ekki við hér.

Brandararnir í kvikmyndinni eru hins vegar oft aðeins of einfaldir; til dæmis felst eitt grínið í því að einn í vinahópnum hrýtur og talar mikið í svefni, sem gerir það að verkum að hinir geta ekki sofnað. Það er hægt að flissa yfir þessu einu sinni en þessi brandari er síendurtekinn í myndinni og verður þar af leiðandi að lokum ekkert fyndinn. Það er hins vegar skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þessi djammferð fer úr böndunum smátt og smátt en þegar líður á myndina verða glufurnar í handritinu stærri og stærri. Í ágripinu fyrir myndina stendur: „Þeir [prestarnir] eru svo uppteknir við vinnu sína og smakkið að þeir missa af kraftaverkunum sem gerast allt í kringum þá.“ Þessi svokölluðu kraftaverk eru mjög áhugaverður hluti í myndinni og eru atriði eins og þegar ein styttan grætur blóðugum tárum. Einnig er gefið til kynna að María sé hin eina sanna María Mey nema að í þetta sinn er hún virkur alkóhólisti sem klæðist joggingfötum og keyrir fjóra presta á milli vínekra. Þessi eiginleiki myndarinnar, þ.e.a.s. hið yfirnáttúrulega, gerir hana ólíka öðrum týpískum försum og er þess vegna spennandi en því miður er ekki nóg vel unnið með þennan þátt. Atriðin eru of fá og skilja eftir fleiri spurningar en þau bæta við og styrkja myndina.

Það er líka stundum eins og leikurinn hafi verið klipptur í of stóra og bratta hluta. Það eru til dæmis mjög skrítnar sveiflur í leik Hilmis Snæs þegar persónan hans á í samskiptum við Maríu bílstjóra. Hann sveiflast frá því að vera reiður yfir í það að sýna henni óvænta hlýju út af að því er virðist engri ástæðu. Það hefði verið rökrétt ef hann hefði verið pirraður út í hana alla myndina þar sem hún var ekki að standa sig í vinnunni, þ.e.a.s. að keyra, enda yfirleitt komin með vel í tána. Þessar sveiflur eru skrítnar og gera það verkum að það virðist vanta einhver atriði á milli þeirra í myndina. Fundið efni af vínberjum og vínekru var oft notað sem uppfyllingarefni í kvikmyndinni og sum skot oftar en einu sinni. Um er að ræða oft hæg drónaskot sem eru algjörlega úr takti við restina af kvikmyndatökunni í myndinni sem er frekar hefðbundin.

Að þessu öllu sögðu er Guðaveigar aðeins of slitrótt og þegar myndin klárast eru einum of margir lausir endar eftir. Prakkaraskapurinn og endalaust klúður virðist til dæmis hafa litlar sem engar afleiðingar, sem er ófullnægjandi fyrir áhorfendur. Myndin klárast þannig nánast á hápunkti sínum þegar flækjustigið er orðið svo mikið að áhorfendur eru komnir með hnút í magann og spyrja sig: Hvernig ætla þau að klóra sig fram úr þessu? Örn Marinó og Þorkell greiða hins vegar ekki úr flækjunum heldur hoppa í staðinn fram í tímann og reyna að ganga frá restinni með einum stórum brandara sem er að vísu mjög fyndinn og því væri algjör synd að spilla honum fyrir lesendum. Lokabrandarinn er þó ekki nóg til þess að bæta upp fyrir aðra vankanta myndarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR