Framtíð Kvikmyndaskóla Íslands í mikilli óvissu

Böðvar Bjarki Pétursson, eigandi og stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands, segir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra standa gegn yfirfærslu skólans á háskólastig. Þá sé nemendum nú neitað um námslán og þjónustusamningur við ríkið sé ekki lengur í gildi.

Böðvar Bjarki bendir einnig á að fyrir liggi að niðurstaða óháðrar sérfræðinganefndar, sem sami ráðherra skipaði og skilaði af sér fyrir tveimur árum, var sú að við skólann færi nú fram svokallað fimmta þreps nám (nám á háskólastigi).

Frá vinstri: Börkur Gunnarsson þáverandi rektor Kvikmyndaskólans, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála og Hrafnkell Stefánsson námsstjóri Kvikmyndaskólans. Myndin var tekin þegar Áslaug Arna kynnti sér starfsemi skólans í júní 2023.

Böðvar Bjarki skrifar:

Væntanlega eru ráðherraskipti framundan í háskólaráðuneytinu í tengslum við kosningar til Alþingis á morgun. Að því tilefni þykir undirrituðum rétt að að fara yfir stöðuna í háskólayfirfærslu Kvikmyndaskóla Íslands, sem því miður er ófrágengin.

Fyrir liggur að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir núverandi ráðherra setti Kvikmyndaskóla Íslands í úttekt vegna umsóknar skólans um viðurkenningu á fræðasviði lista og uppfærslu náms skólans af 4. hæfniþrepi á hið 5. Niðurstöður úttektar lágu fyrir 12. desember árið 2022. Algerlega skýr niðurstaða var að við skólann færi fram 5. þreps nám. Ráðherra voru veittar þær heimildir sem lög um háskóla nr 63/2006 setja, að ákvörðun ráðherra skuli tekin á grundvelli umsagnar þriggja óháðra sérfræðinga.

Síðastliðnir 24 mánuðir hafa farið í deilur Kvikmyndaskólans við háskólaráðuneytið um:

  • Rétt skólans til afgreiðslu umsóknar eftir kostnaðarsamt og mjög viðamikið umsóknarferli. Á því tímabili (haustið 21) byrjaði skólinn raunverulega að starfa sem háskóli, sem hann hefur gert síðan.
  • Rétt nemenda til að fá gráður sínar rétt metnar. Athuga skal að skjólstæðingar Kvikmyndaskóla Íslands úr 120 eininga diplómu náminu, ná aftur til 2009, því námið hefur verið það sama. Um er að ræða uþb. 600 nemenda hóp. Hver er þeirra réttur, nú þegar staðfest er að við skólann fer fram 5. þreps nám?
  • Rétt sjálfstæðrar nýsköpunar í háskólastarfi á Íslandi. Getur háskóli ekki orðið til á Íslandi, utan núverandi þegar samþykktra háskólaleyfa? Á einkaleyfi einkaskólans Listaháskóla Íslands á fræðasviði lista að standa óhögguð áratugum saman án samkeppni?

Meginfyrirstaðan hefur verið fólgin í þeirri pólítík núverandi ráðherra að háskólum á Íslandi skuli ekki fjölgað, heldur fækkað. Ráðherra hefur því hafnað að taka við Kvikmyndaskólanum og hefur beitt til þess þeim aðferðum að svara ekki formlegum erindum og bréfum skólans, auk þess sem embættismenn hafa sértúlkað umsagnir sérfræðinga.

Eins og staðan er hjá skólanum í dag, þá hefur Kvikmyndaskóli Íslands enga viðurkenningu, námslánahæfi nemenda er fallið niður vegna starfsemi kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands og skólinn hefur ekki framlengdan þjónustusamning.

Nýtt stjórnarráð verður að strax að ganga í að leysa þessi verkefni svo ekki komi frekari hnökrar á starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað. Það verður að tryggja að nemendur fái nám sitt metið á réttu skólastigi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR