Sigurður Örn, sem kunnur var sem SÖB, lést 22. nóvember síðastliðinn í Eistlandi. Hann fæddist 19. september 1947 í Reykjavík. Hann nam grafíska hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og frjálsa myndlist, málun og grafík við Academie van Beeldende Kunsten í Rotterdam.
Sigurður Örn hóf feril sinn sem grafískur hönnuður á nokkrum auglýsingastofum hér á landi, vann síðar sjálfstætt sem teiknari og kenndi um tíma grafíska hönnun við Myndlista- og handíðaskólann. Hann flutti til Eistlands 1993 og fékkst þar við gerð teiknimynda, myndasögugerð og gerð barnabóka.
Fyrsta teiknimynd hans, Þrymskviða, var sýnd í Regnboganum og á RÚV 1980. Eitt kunnasta verk hans er þáttaröðin Jól á leið til jarðar sem var sýnd sem jóladagatal RÚV árið 1994 og hefur verið endursýnd oft síðan við miklar vinsældir. Meðhöfundur hans að verkinu var Friðrik Erlingsson en þættirnir voru unnir í Eistlandi.
Sigurður Örn kom að gerð hátt í 100 teiknimynda og voru flestar gerðar erlendis. Auk starfa í Eistlandi vann hann einnig að verkefnum í Svíþjóð, Finnlandi, Ungverjalandi og Litháen, sem og á Íslandi.
Sigurður Örn teiknaði einnig myndasögur í dagblöð, eins og um Bisa og Krimma, sem birtust í DV 1977-1978 og Pú og Pa, sem birtust í Fréttablaðinu 2003. Hann hélt sýningar á eigin verkum bæði hér á landi og erlendis og hlaut alþjóðlegar viðurkenningar fyrir teikningar sínar.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar Arnar er Liivia Leskin fatahönnuður og sonur þeirra er Tindur Leskin, f. 2001. Fyrri eiginkona hans var Fjóla Rögnvaldsdóttir myndmenntakennari og eignuðust þau þrjú börn; Rögnvald Frey, f. 1968, Brynjólf Ara, f. 1972, og Helgu, f. 1979. Barnabörnin eru fjögur og eitt barnabarnabarn.
Útför Sigurðar Arnar fer fram í Eistlandi en minningarathöfn verður haldin á Íslandi í janúar nk.