Teiknimyndaröðin ÆVINTÝRI TULIPOP seld til Ítalíu og Frakklands

Tulipop Studios hefur samið við ríkissjónvarpstöðvarnar Rai á Ítalíu og TF1 í Frakklandi um sýningar á íslensku teiknimyndaröðinni Ævintýri Tulipop.

Í tilkynningu segir að þetta séu tímamótasamningar fyrir félagið þar sem um er að ræða virtar sjónvarpsstöðvar með markaðsráðandi stöðu á sínum svæðum.

TF1 og Rai bætast í ört stækkandi hóp sjónvarpsstöðva um heim allan sem sýna þáttaröðina Ævintýri Tulipop. Þáttaröðin hefur nú verið talsett á átta tungumálum, meðal annars á pólsku, norsku, finnsku, arabísku og frönsku, og er komin í sýningar á YLE í Finnlandi, MBC í Mið-Austurlöndum, Canal+ í Póllandi, Tele-Québec í Kanada, Cartoonito í Bretlandi og Showmax í Suður-Afríku.

Alls staðar hefur þáttaröðinni verið mjög vel tekið, en þáttaröðin Ævintýri Tulipop er til dæmis ein af fimm vinsælustu þáttaröðunum fyrir börn hjá Canal+ í Póllandi og meðal vinsælustu þáttaraðanna hjá NRK í Noregi, segir einnig í tilkynningunni.

Á Íslandi eru þættirnir sýndir hjá Sjónvarpi Símans Premium. Þar eru fyrstu 39 þættirnir nú aðgengilegir áskrifendum, en ætlunin er að gera alls 52 þætti. Þriðja syrpa þáttanna kom í Sjónvarp Símans í september síðastliðnum, alls 13 þættir. Von er á síðasta skammti á næsta ári.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop Studios og framleiðandi þáttaraðarinnar segir:

Það eru risastór tímamót að fá Rai og TF1 í hóp þeirra sjónvarpsstöðva sem bjóða börnum að horfa á Ævintýri Tulipop. Það er mikill gæðastimpill fyrir okkar teiknimyndaframleiðsluverkefni auk þess sem að samningarnir opna stóra möguleika varðandi frekari vöxt Tulipop vörumerkisins á þessum mikilvægu evrópsku mörkuðum. Við hlökkum til að færa enn fleiri krökkum um allan heim Ævintýri Tulipop sem eru full af fjölbreyttum karakterum, grípandi tónlist og jákvæðum boðskap.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR