Stefnir í að Ísland verði niðurgreidd auðlind fyrir alþjóðlegan kvikmyndaiðnað, segja handritshöfundar

Nýkjörn stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda (FLH) hefur sent frá sér áskorun til þingmanna um að leiðrétta hið snarasta þá varhugaverðu stefnu sem fjárveitingar til kvikmyndagerðar á Íslandi hafa tekið á síðustu misserum.

Bréf FLH er svohljóðandi:

ÁSKORUN FLH TIL ÞINGMANNA:

Á AÐ FÓRNA ÍSLENSKRI KVIKMYNDAGERÐ FYRIR ALÞJÓÐLEGAR STREYMISVEITUR?

Stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda skorar á Alþingismenn að leiðrétta hið snarasta þá varhugaverðu stefnu sem fjárveitingar til kvikmyndagerðar á Íslandi hafa tekið á síðustu misserum, sem að óbreyttu mun leiða til þess að á meðan risaverkefni frá Hollywood eru niðurgreidd um marga milljarða mun framleiðsla á íslenskum sjónvarpsseríum og íslenskum bíómyndum skreppa verulega saman með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir menningu okkar og tungu.

Endurgreiðslur til kvikmyndaverkefna eru vissulega fagnaðarefni og lyftistöng fyrir vaxandi iðnað, sem skilar þeim upphæðum margföldum inn í íslenskt hagkerfi, en með því að skera á sama tíma niður framlög til Kvikmyndamiðstöðvar, er beinlínis brugðið fæti fyrir öll ný íslensk kvikmyndaverkefni, sem eru algerlega háð styrkjum frá KMÍ til handritsskrifa, þróunar og frekari fjármögnunar.

Ef ekkert verður að gert stefnir í að sem kvikmyndaland verði Ísland fyrst og fremst glæsileg, niðurgreidd leikmynd fyrir alþjóðlegar kvikmyndir og sjónvarpsseríur á meðan alger stöðnun er yfirvofandi á sviði innlendra kvikmynda- og sjónvarpsverkefna sem aftur leiðir af sér atvinnuleysi hjá frumskapendum þeirra verka, handritshöfundum, leikstjórum og framleiðendum.

Við erum ekki ein á þessum báti. Í ýmsum löndum, svo sem Kanada, Nýja Sjálandi og víða í Mið- og Austur Evrópu hefur keppni í undirboðum til alþjóðlegra framleiðenda leitt til þess að þarlendir höfundar, leikstjórar og framleiðendur hafa þurft að leita sér að annarri vinnu á meðan alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki og streymisveitur draga til sín síaukið fjármagn frá hinu opinbera í viðkomandi landi, beinlínis á kostnað innlenndra verkefna. Það ætti að vera ráðafólki víti til varnaðar.

Verði fjármagn til KMÍ ekki aukið í samræmi við nýlega samþykkta kvikmyndastefnu, verður Ísland, einnig á þessu sviði, fyrst og fremst niðurgreidd auðlind fyrir alþjóðlegan kvikmyndaiðnað, en glatar um leið öflugustu möguleikum sínum til að styðja og efla eigin menningu og tungu. Við trúum ekki að það sé raunverulegur vilji Alþingis, eða stjórnvalda að fórna íslenskri kvikmyndagerð fyrir alþjóðlegar streymisveitur.

Reykjavík 23. október 2024.

Stjórn FLH:
Sveinbjörn I. Baldvinsson, formaður
Huldar Breiðfjörð
Helga Arnardóttir
Björg Magnúsdóttir
Snjólaug Lúðvíksdóttir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR