Dagskráin er svona:
15:00 – Ósvaldur Knudsen
Surtur fer sunnan (1964) 23 mínútur
Árið 1963 hófst eldgos skammt frá Vestmannaeyjum og með miklum gosstrókum og sprengingum reis Surtsey úr hafinu. Ótrúleg myndskeið Ósvalds af þessum mikilfenglegu hamförum undir rafmagnaðri tónlist Magnúsar Blöndal skapa hér nýjar víddir í íslenskri kvikmyndagerð. Myndin vakti mikla athygli þegar hún kom út og hlaut mikið lof hér á landi, en þó ekki síst erlendis þar sem hún var sýnd á kvikmyndahátíðum og í sjónvarpi um allan heim.
Eldur í Heimaey (1974) 28 mínútur
Þessi merkilega mynd feðganna Ósvalds og Vilhjálms Knudsen sýnir eldgosið í Vestmannaeyjum í öllu sínu ógnvænlega veldi. Aðfaranótt 23. janúar 1973 hófst kraftmikið eldgos rétt austan við byggðina á Heimaey. Með ótrúlega skjótum hætti tókst að bjarga öllum bæjarbúum og var það upphafið að miklum björgunaraðgerðum næstu vikur og mánuði. Ósvaldur og Vilhjálmur fönguðu þessar hrikalegu hamfarir og björgunaraðgerðir á filmu og úr varð þessi ótrúlega mynd.
Bjarki Sveinbjörsson tónlistarfræðingur mun halda stutt erindi eftir sýningarnar og fræða gesti um einstaka tónlistarsköpun og hljóðheim Magnúsar Blöndal sem hann gerði við myndirnar.
17:00
Órói (2010) – 93 mínútur
Dramatísk og falleg kvikmynd eftir Baldvin Z um Gabríel sem er í leit að sjálfum sér, sextán ára og ringlaður í síbreytilegri og flókinni veröld. Hans nánustu merkja breytingar á honum þegar hann kemur heim eftir tveggja vikna dvöl í Manchester, þar sem hann kynntist hinum uppreisnargjarna Marcusi. Eftir röð óheppilegra atburða og sjálfsvíg bestu vinkonu hans, Stellu, fellur Gabríel í hyldýpi örvæntingar, sem neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig. Órói hverfist um ást, missi, hatur, svik, sælu, sorg og fyrirgefningu.
Myndin er sýnd sem hluti af sýningaröðinni Hinsegin bíó. Baldvin Z. og nokkrir aðalleikarar myndarinnar ræða við áhorfendur eftir sýninguna.
19:30
Pale Flower (1964) – Kawaita hana- 96 mínútur
Þessi stórkostlega „film noir“ kvikmynd í leikstjórn Masahiro Shinoda er af mörgum talin með bestu kvikmyndum sögunnar. Hún segir frá Muraki, launmorðingja fyrir glæpagengi Yakusa, sem er nýsloppinn úr fangelsi. Hann laðast að dularfullri og áhættusækinni ungri konu sem heitir Saeko. Ástin kviknar og lostinn eykst en fljótlega einkennist samband þeirra af yfirþyrmandi og sjálfseyðandi hvötum. Í samstarfi við JP Foundation og japanska sendiráðið.