Í frétt á vef blaðsins segir meðal annars:
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) vara fjárlaganefnd við því að taka jákvætt í beiðni Bíós Paradísar um 50 milljóna króna ríkisstyrk. Samtökin segja ljóst að rekstur kvikmyndahússins sé ósjálfbær og að opinber fjárframlög til þess skekki samkeppnisstöðu á markaðnum.
„Auðsætt er að opinber fjárframlög til reksturs eins kvikmyndahúss leiðir af sér alvarlega mismunun og skekkir samkeppnisstöðu kvikmyndahúsa,“ segir í athugasemd SVÞ vegna erindis Heimili kvikmyndanna ses.
„Margt gott má segja um kvikmyndahúsið BÍó ParadÍs. Það virðist þó ljóst að rekstur þess er ósjálfbær.“
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum þá óskaði Heimili kvikmyndanna ses., sjálfseignarstofnunin sem heldur utan um rekstur Bíós Paradísar, eftir því við fjárlaganefnd að hún styrki starfsemi bíóhússins um 50 milljónir króna á árinu 2025.
Þetta er annað árið í röð sem Bíó Paradís leitar til fjárlaganefndar og óskar eftir 50 milljóna ríkisstyrk til viðbótar við önnur fjárframlög frá hinu opinbera. Fjárlaganefnd féllst í fyrra á að veita Bíó Paradís 18 milljónir króna í tímabundinn styrk í fjárlögum 2024.
Bíó Paradís því fær alls 78 milljónir króna í formi rekstrarstyrkja frá bæði ríki og borg í ár. Kvikmyndahúsið fær 56 milljónir árlega í gegnum samstarfssamninga við Reykjavíkurborg og ríkisstofnunarinnar Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Komi óhjákvæmilega niður á öðrum bíóhúsum
SVÞ segja að ekki verði séð að gengið hafi verið úr skugga um að umfang styrkjanna nemi fjárhæð sem rúmast innan marka reglna EES-samningsins á sviði ríkisstyrkja.
Samtökin segja ríkan stuðning hins opinbera við rekstur Bíós Paradísar óhjákvæmilega koma niður á tekjumöguleikum annarra kvikmyndahúsa „sem hafa, eins og Bíó Paradís, félagslegu og menningarlegu hlutverki að gegna, gera íslenskri kvikmyndagerð hátt undir höfði og skapa fjölda starfa“.
Þau hvetja Alþingi til þess að hafa jafnræði í heiðri ef veita á fjárframlög til kvikmyndasýninga. Það sé skoðunar virði að bjóða út þá félags- og menningarlegu þjónustu kvikmyndahúsa sem æskilegt er talið að hér verði starfrækt.
Rekstur kvikmyndahúsa í járnum
SVÞ segja að rekstur margra kvikmyndahúsa sé í járnum sem megi m.a. til áhrifa tekjufalls í Covid og aukinnar samkeppni frá streymisveitum. Þá hafi aðsókn í kvikmyndahús dregist verulega saman og sé aðeins um helmingur þess sem hún var fyrir heimsfaraldurinn.
Kvikmyndasýningar í Háskólabíói heyri sögunni til og önnur bíóhús hafa fækkað sýningarsölum. Um síðustu mánaðamót var tveimur kvikmyndasölum við Álfabakka í Reykjavík lokað og um næstu mánaðamót verður Nýjabíóinu í Keflavík skellt í lás.
„Rekstraraðilar kvikmyndahúsa standa því frammi fyrir alvarlegri stöðu og mega ekki við frekari skakkaföllum.“