HBO vildi loforð frá Lilju um hærri endurgreiðslu og fékk send frumvarpsdrög

Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn á RÚV fjallaði í gær um aðdraganda þess að 35% endurgreiðslan verður að lögum. 

Segir meðal annars á vef RÚV:

Spegillinn óskaði nýverið eftir öllum gögnum sem til voru í menningarráðuneytinu um aðkomu ráðuneytisins að þessu verkefni (True Detective). Fullyrt hefur verið að frumvarp sem hækkaði endurgreiðslu til stórra sjónvarps- og kvikmyndaverkefna hafi verið keyrt í gegnum Alþingi til að verkefnið yrði að veruleika.

Spegillinn fékk líka afhenta umsókn Truenorth um endurgreiðsluna og afgreiðslu hennar hjá nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

1.600 manns í vinnu þegar mest lét

True Detective var nærri tveggja ára verkefni. HBO hóf að kanna tökustaði á Reykjanesi og Akureyri í febrúar 2022 til að finna landslag sem hægt væri að tengja við Alaska.

Í umsókn Truenorth um endurgreiðslu segir að fjöldi sérfræðinga hafi verið með í för til að hanna sviðsmynd og handritshöfundar til að aðlaga söguna að aðstæðum.

Starfsmannafjöldinn við verkefnið var um og yfir sex hundruð manns en með aukaleikurum um sextán hundruð. Allar fjárhagsáætlanir tóku mið af því að geta brugðist við veðri og vindum auk þess sem HBO vildi að COVID-reglum væri fylgt með sýnatökum og tilheyrandi inngripum. Tökudagarnir voru 125, þar af 56 að nóttu til og tökuliðið líkti sjálfu sér við sirkuslest þegar það kom til Dalvíkur með allt sitt hafurtask.

Sá kostnaður sem féll til hér á Íslandi var rúmir ellefu milljarðar og endurgreiðslan úr ríkissjóði nam því rúmum fjórum milljörðum.

Lilja boðar frumvarp í viljayfirlýsingu

Í gögnum sem fréttastofa fékk afhent er að finna viljayfirlýsingu sem Lilja Alfreðsdóttir, menningarráðherra, sendi Leifi Dagfinnssyni, forstjóra True North, eftir fund þeirra og háttsettra aðila frá HBO í febrúar árið 2022. Yfirlýsingin er dagsett 16. mars 2022.

Í henni kemur fram að það sé vilji Lilju og stjórnvalda að hækka endurgreiðsluna fyrir stór verkefni sem hingað koma úr 25 prósentum í 35 prósent.

Starfshópur sé að störfum sem eigi að skila tillögum í formi fullbúins frumvarps fyrir 1. september en áfangaskýrslu fyrir 1. júní. Reiknað sé með að frumvarpið verði að lögum í janúar 2023 og verið sé að skoða hvort hægt sé að hafa greiðslur afturvirkar.

Sex dögum seinna leggur Lilja fyrir ríkisstjórnina minnisblað þar sem hún staðfestir þessi áform sín og upplýsir að hún hafi átt fund með forsvarsmönnum True North og háttsettum aðilum frá HBO. Fulltrúar HBO hafi óskað eftir viljayfirlýsingunni um áform stjórnvalda eins og þau birtist í stefnu stjórnvalda þar sem þeir vilja taka upp True Detective hér á landi. Ráðherrann nefnir að HBO hafi verið að skoða ýmis önnur lönd fyrir þessa framleiðslu.

Forstjóri hjá HBO blandar sér í málið

Tveimur dögum eftir ríkisstjórnarfundinn berst ráðherra bréf frá Jay Roewe, háttsettum forstjóra hjá HBO. Hann segist þakklátur fyrir þau skref sem stjórnvöld ætli að taka til að styðja við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. En….og þetta er býsna stórt en – Roewe fer þess á leit við ráðherrann að HBO verði gefið það loforð að 35 prósent af framleiðslukostnaði True Detectvie verði endurgreiddur þótt frumvarp ráðherrrans verði ekki að lögum.

Roewe útskýrir sjónarmið félagsins í bréfinu – til þess að tökur á Night Country geti farið fram hér á landi að öllu leyti þurfi HBO að ráðast í uppbyggingu á innviðum í íslenskri sjónvarps- og kvikmyndagerð.

Þessum auka tíu prósentum verði að mestu leyti varið í þá uppbyggingu. Þá njóti True Detective-þáttaraðirnar mikilla vinsælda, HBO muni leggja mikið í markaðssetningu á þáttunum. Ekki megi heldur gleyma þeim áhrifum sem þáttaröðin geti haft á ferðaþjónustu og því að ríkissjóður fái skatttekjur af launagreiðslum leikara – eins og Jodie Foster.

Roewe telur að fjárfesting HBO eigi eftir að verða íslenskri sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu til góða, löngu eftir að tökum á þáttunum ljúki. HBO muni hins vegar þykja óþægilegt að verja hér háum fjármunum geti íslensk stjórnvöld ekki lofað þessari endurgreiðslu. Hún leiki algjört lykilhlutverk í að Ísland verði fyrir valinu sem tökustaður.

Afstaða Lilju breyttist á nokkrum dögum

Lilja svarar erindinu 21. apríl og segist ekki geta gefið þannig loforð. Slíkt þurfi samþykki frá Alþingi og myndi ólíklega hljóta þar hljómgrunn.

Hún ítrekar að starfshópur sé að störfum, frumvarpið um hækkun endurgreiðslunnar til stórra verkefna verði lagt fram í september og eigi að taka gildi í janúar 2023. Verið sé að skoða hvort hægt sé að hafa greiðslurnar afturvirkar. Ríkisstjórnin sé sannfærð um að HBO fái 35 prósent endurgreiðslu, þó með þeim fyrirvara að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi, sem hún reiknar fyllilega með.

Lilja fundar með Roewe fjórum dögum seinna og annan maí er annað hljóð komið í strokkinn. Í bréfi til Roewe er ljóst að ráðherra telur ekki lengur nauðsynlegt að bíða eftir tillögum starfshópsins – það sé núna orðið vel gerlegt að frumvarp um hækkun endurgreiðslunnar fari í gegnum Alþingi fyrir sumarfrí. Smíði þess sé á lokametrunum og verði kynnt í ríkisstjórn í vikunni.

Markmiðið sé að það verði samþykkt í júní og taki gildi samstundis en ekki í janúar 2023 eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Roewe fær senda enska þýðingu á frumvarpsdrögunum sér til upplýsinga.

Fjórum dögum seinna kynnir Lilja minnisblað í ríkisstjórn þar sem hún greinir frá þessari breytingu. Hún segir mikinn áhuga á þessum áformum ríkisstjórnarinnar, stór erlend verkefni bíði eftir ákvörðun stjórnvalda og með hliðsjón af því, segir í minnisblaðinu, hafi vinnu við gerð frumvarpsins verið flýtt og hún sett í forgang í ljósi þeirra hagsmuna sem séu undir.

Frumvarpið var síðan lagt fram 20. maí. Það mætti engri andstöðu á þingi heldur þvert á móti – því var tekið fagnandi.

True North útbjó minnisblað fyrir ráðuneytið til að sýna fram á áhrifin sem þættirnir myndu hafa. Þar sagði að þær betrumbætur sem HBO myndi leggja til innviða og aðstöðu íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsgerðar myndu endast um langt skeið eftir að framleiðslu á þáttunum lyki. Þetta væri stærsta einstaka fjárfestingin í íslenskum kvikmyndaiðnaði og mikilvægur liður í að stuðla að heilsársrekstri kvikmyndavera. Verkefnið myndi draga mikla athygli að Íslandi og sýna landið í mjög jákvæðu ljósi sem myndi laða að fjölda ferðamanna til landsins. 

Hér má sjá fréttir af gangi þessa máls sem hafa birst á Klapptré allt frá hausti 2021.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR