Kvöldstund með kvikmyndalistamanni nýr dagskrárliður í Bíó Paradís

Kvöldstund með… er nýr dagskrárliður í Bíó Paradís þar sem þekkt andlit úr kvikmyndamenningunni eru með áhorfendum á sýningum eða frumsýningum kvikmynda.

Í vetur munu leikstjórar, leikarar og aðrir kvikmyndagerðarmenn koma reglulega fram og spjalla við áhorfendur á eftir sýningum mynda þeirra.

Hugguleg kvöldstund þar sem gesturinn fær að njóta sín

Okkur fannst eitthvað svo tilvalið að bjóða áhorfendum upp á huggulega en jafnframt áhugaverða kvöldstund með þeim kvikmyndagerðarmönnum sem koma í Bíó Paradís, innlenda sem erlenda, þar sem gesturinn fær virkilega að njóta sín, segir Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri Bíó Paradísar í spjallli við Klapptré. Þetta er ekki eingöngu spurt og svarað eins og þekkist á kvikmyndahátíðum, heldur eru handvaldir kvöldstundarstjórar sem stýra kvöldunum, svo úr verður ógleymanleg stund í bíó, bætir hún við og segir þau í Bíó Paradís hafa lengi dreymt um að bjóða upp á viðburði af þessu tagi. Svona viðburðir á kvikmyndahátíðum hafa einmitt gefið okkur vísbendingar um hvað áhorfendur vilja sjá og upplifa, segir hún að lokum.

Dagskrá haustsins lítur svona út

Þriðjudaginn 8. október kemur norski leikstjórinn Dag Johan Haugerud í heimsókn og sýnir mynd sína Sex, sem tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.

31. október kemur danska leikkonan Trine Dyrholm í heimsókn, en hún fer með eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni Stúlkan með nálina (Magnus Horn), sem sýnd verður á undan. Dyrholm hefur verið hér á landi undanfarna mánuði við tökur á þáttaröðinni Danska konan í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

7. nóvember verður sýnd ný stafræn útgáfa af kvikmynd Kristínar Pálsdóttur, Skilaboð til Söndru (1983). Kristín verður viðstödd ásamt Guðnýju Halldórsdóttur handritshöfundi og framleiðanda myndarinnar. Guðrún Elsa Bragadóttir og Kristín Svava Tómasdóttir stýra umræðum, en bók þeirra, Duna – saga kvikmyndagerðarkonu, sem er væntanleg, verður til sölu á kvöldstundinni.

Þann 21. nóvember verður nýjasta mynd Dags Kára, Hygge!, frumsýnd og mun hann verða viðstaddur sýninguna og spjalla við áhorfendur á eftir. Myndina gerði Dagur í Danmörku á síðasta ári, en hún er líkt og Villibráð, útgáfa af ítölsku myndinni Perfetti Sconosciuti.

Sjá nánar hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR