spot_img

SNERTING framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2025

Kvik­mynd­in Snerting verður fram­lag Íslands til Óskar­sverðlauna 2025. Mynd­in var val­in af dóm­nefnd Íslensku kvik­mynda- og sjón­varps­aka­demí­unn­ar, en í henni í sátu full­trú­ar helstu fag­fé­laga ís­lenska kvik­myndaiðnaðar­ins, auk full­trúa kvik­mynda­húsa, kvikmyndagagn­rýn­enda og Kvik­mynda­miðstöðvar Íslands.

Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:

Snerting er í senn epísk og afskaplega mannleg saga um tilfinningar, ást, eftirsjá og litlu augnablikin í lífi hvers manns sem öðlast merkingu þegar horft er til baka. Í Snertingu er unnið með klassísk þemu og frásagnarstef á nýstárlegan og listrænan máta. Mögulega er hægt að endurheimta ástina sem rann aðalpersónunum úr greipum áratugum fyrr, en spurningin hvað það þýðir og hvað hefur glatast liggur myndinni til grundvallar. Á sama tíma og unnið er með þessi klassísku stef eru þau framsett með óvenjulegri sjónrænni fágun og næmni, og hinn þverþjóðlegi söguheimur er kallaður fram ekki sem bakgrunnur heldur burðarstólpi í sjálfri ástarsögunni; inn í viðkynningu Miko og Kristófers eru þræddir sögulegir og menningarlegir þættir sem bæði sameina og sundra. Tengingarnar milli parsins og ástin sjálf birtast í lýsingu og sjónarhorni, birtunni sem umlykur líkama þeirra og hvernig þeir samtvinnast og snertast, í rýmisvenslunum í eldhúsinu alveg eins og því sem er sagt. Snerting er hrífandi saga um mennskuna, menningarheima sem skarast á og leitina að svörum við ósvöruðum spurningum. Atvik og örlög heillar mannsævi fléttuð saman í órofa heild.

97. Óskar­sverðlauna­hátíðin verður hald­in sunnudaginn 2. mars 2025. Ferli kosninga Akademíunnar er þannig að stuttlistinn svokallaði verður kynntur 17. desember næstkomandi, en til­nefn­ing­ar til verðlaun­anna verða opinberaðar 17. janúar 2025.

Snerting segir frá Kristófer, sjötugum ekkli, sem komin er á eftirlaun. Hann leggur upp í ferðalag, þegar heimsfaraldurinn er skollinn á, í von um að finna skýringu á því hvað orðið hafi um kærustu hans sem hvarf sporlaust frá London 50 árum áður. För hans leiðir hann yfir hálfan hnöttinn og alla leið til Japans.

Kvikmyndin er byggð á skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem kom út árið 2021 og skrifar hann handritið ásamt Baltasari Kormáki sem leikstýrir myndinni. Aðalhlutverkið er í höndum Egils Ólafssonar en auk hans fara þau Pálmi Kormákur, Sigurður Ingvarsson, María Ellingsen, Theodór Júlíusson, Starkaður Pétursson og Benedikt Erlingsson með hlutverk í myndinni. Japönsku leikararnir Koki, Yoko Narahashi, Masatoshi Nakamura, Meg Kubota og Eiji Mihara fara einnig með hlutverk í Snertingu.

Myndin er fram­leidd af Baltasar og Agnesi Johansen fyrir RVK Studios í samvinnu við Mike Goodridge hjá Good Chaos í Bretlandi. Dreifingaraðili myndarinnar á heimsvísu er Universal en dótturfyrirtæki þess, Focus Features dreifir Snertingu í Bandaríkjunum og var hún frumsýnd vestanhafs um miðjan júlí.

Frumsýning Snertingar var í íslenskum kvikmyndahúsum þann 29. maí síðastliðinn. Hún hefur þegar verið frumsýnd í kvikmyndahúsum í Þýskalandi, Ástralíu, Bretlandi, Írlandi, Singapúr og Ítalíu ásamt því að vera sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim. Hún verður frumsýnd enn víðar seinna á þessu ári og byrjun árs 2025.

Snerting er einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 sem verða opinberuð 22. október næstkomandi á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR