spot_img

Snævar Sölvason: LJÓSVÍKINGAR hverfist um vináttu

Snævar Sölvason, leikstjóri kvikmyndarinnar Ljósvíkingar, var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá myndinni.

Segir á vef RÚV:

Hugmyndina að Ljósvíkingum fékk hann þegar hann var staddur á veitingastaðnum Tjöruhúsið sem rekinn er af fjölskyldu í gömlu húsi á Ísafirði. Staðurinn er þekktur fyrir frábæra stemningu og heimsklassa fiskmeti sem fer ferskt á pönnuna og í pottinn á hverjum degi og þaðan á margrómað hlaðborð. Hann leit í kringum sig og hugsaði að þetta væri fullkomið sögusvið fyrir bíómynd.

Snævar segir að það hafi ekki áður verið gerð íslensk kvikmynd sem hverfist um veitingastað en hann vantaði þá bara sögu. Hann hafði áður tekið nokkrar vaktir í uppvaski á staðnum svo hann þekkti til og ákvað að láta söguna hverfast um vináttu.

Eitt kvöldið var hann að horfa á heimildarmynd um tvo eldri hinsegin menn í New York sem voru í skápnum. Annar þeirra var trans og þannig kviknaði sú hugmynd hjá Snævari.

Lagði á sig andlegar raunir til að tækla verkefnið

Hjalti, sem Björn Jörundur leikur, hefur átt þennan æskuvin í fimmtíu ár þegar vinurinn, Birna sem áður hét Björn, kemur úr skápnum sem trans. Hjalti verður sár yfir því að Birna hafi haldið því leyndu fyrir sér í öll þessi ár.

Björn Jörundur var í veiði þegar Snævar sendi honum handritið. Hann las það í gegn í einum rykk og sagðist strax vera til.

Arna Danks sem fer með hlutverk Birnu þurfti hins vegar lengri tíma. „Hún sagði: þetta er æðisleg saga, ég er búin að lesa handritið en ég treysti mér ekki í þetta,“ segir Snævar.

Arna hefur greint frá því í viðtali að það hafi verið erfið tilhugsun að bregða sér í gervi karlmanns eftir að hafa leikið það hlutverk stóran hluta ævi sinnar og verið í felum með sjálfa sig. Snævar skildi hana vel og bauð henni að koma að verkefninu sem ráðgjafi. Loks sagðist Arna vera tilbúin að leika Birnu. „ Arna segir: Mig langar að gera þetta. Þetta er besta saga sem sögð hefur verið á Íslandi sem tengist okkar hópi og ég er bara fáviti ef ég tek þetta ekki.“

Snævar segir hana hafa staðið sig afar vel en ákveðnir tökudagar, þegar hún var í gervi karlmanns, hafi tekið á. „Þegar hún var í meiköppstól og hulunni svipt af þá var það erfitt fyrir hana. Ég er svo þakklátur fyrir að hún lagði á sig andlegar raunir til að tækla þetta en myndin hefði fallið hefði þetta hlutverk ekki gengið upp.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR