Bók um Guðnýju Halldórsdóttur væntanleg í haust

Með haustinu er væntanleg bók um leikstjórann Guðnýju Halldórsdóttur eftir Guðrúnu Elsu Bragadóttur kvikmyndafræðing og Kristínu Svövu Tómasdóttur, rithöfund og sagnfræðing. Bókin ber titilinn Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu.

Segir meðal annars á vef RÚV:

Rætt var við þær stöllur í Linsunni á Rás 1 um tildrög bókarinnar og hvers lesendur mega vænta.

„Okkur þótti þetta afar þarft, bara vegna hennar stöðu í íslenskri kvikmyndagerð, sem kona í íslenskri kvikmyndagerð. Líka bara af því að við vissum báðar að hún er afskaplega skemmtileg kona, rödd sem væri gaman að fá að láta heyrast á bók,“ heldur Kristín Svava áfram.

Undir þetta tekur Guðrún Elsa og segir það einnig hafa haft áhrif á ákvörðun þeirra að ekki hafi verið skrifað mikið um kvikmyndagerð yfir höfuð á Íslandi. „Okkur langaði að skrifa svona fagævisögu um hennar feril í kvikmyndagerð og þannig líka bæta við það efni sem er til um íslenskar kvikmyndir og íslenska kvikmyndagerð. Svo er þetta líka, ef mér skjátlast ekki, fyrsta bókin um íslenskan kvenleikstjóra.“

Guðný er einn afkastamesti leikstjórinn í íslenskri kvikmyndasögu og á að baki tæplega 50 ára feril. „Þetta er saga hennar og svo einhvern veginn fylgist maður með í gegnum sögu kvikmyndagerðar á Íslandi frá því á áttunda áratugnum og fram á nýja öld.“

Kristín Svava, sem þekkti vel til Guðnýjar áður en rannsóknir þeirra á verkum hennar hófust, segir það koma sér á óvart hve mikið liggi eftir hana í ýmsu formi. „Það er eiginlega alveg magnað.“

Það sem hafi komið Guðrúnu Elsu á óvart er hve hógvær Guðný sé. „Hún er voðalega lítið fyrir að gera sig breiða eða líta stórt á sig. Hún talar eins og kvikmyndagerð sé samvinna fólks, einstaklinga sem vinna að myndinni – sem kvikmyndagerð er. En það er ákveðin tilhneiging hjá leikstjórum, og kannski ekki síst karlleikstjórum, að vilja draga fram eigin snilligáfu eða mikilvægi,“ segir Guðrún Elsa.

Við vinnslu bókarinnar hafi þær lesið fjölmörg viðtöl við leikstjórann og samstarfsfólk hennar ásamt því að ræða við þetta sama fólk. „Það tala allir um hvað hún skapar góða stemningu á setti, það er gaman að vinna með henni og gott. Hún virðist bera mikla virðingu fyrir fólki, sama hvað það er að vinna við í myndinni, hún er ekki að gera mannamun eða uppi á milli. Mér fannst það ríma við þennan karakter sem ég var að kynnast í gegnum samtölin okkar við hana. Hún er mjög jarðbundin.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR