spot_img

Hrafnhildur Gunnarsdóttir: Heimildamyndir geta verið öflugt pólitískt hreyfiafl

Hrafnhildur Gunnarsdóttir segir heimildamyndir geta verið öflugt pólitískt hreyfiafl og þær geta líka dregið fram mennskuna sem býr í erfiðum og flóknum aðstæðum. Hún ræðir verk sín í þættinum Linsunni á Rás 1.

Á vef RÚV segir:

Hrafnhildur segir að það sé ekki starf að festa söguna á mynd heldur lífsstíll. Hún gerir það vegna þess að hún vill hreyfa við heiminum.

Árið 1992 tók Hrafnhildur fyrsta viðtalið um viðfangsefni sem átti eftir að verða hennar umfangsmesta verkefni: Svona fólk, fimm þætti um reynsluheim og réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Frásögnin er frá hennar eigin sjónarhóli enda leggi hún sjálf við hlustir ef nálgun mynda er persónuleg og heiðarleg. Hrafnhildur hlaut tilnefningu til Edduverðlaunanna fyrir myndina Lifað í limbó árið 2007. Verðlaunin hlaut hún svo þrettán árum síðar fyrir myndina Vasulka áhrifin.

Leist ekkert á blaðamennskuna vestanhafs

Hrafnhildur fæddist í Reykjavík. Hún lærði ljósmyndun og kvikmyndagerð við Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum og ætlaði að verða blaðamaður. „Ég var búin að hlera það að Kalifornía væri góður staður og sérstaklega Berkeley, þar sem ég endaði. En svo leist mér ekkert rosalega vel á blaðamennskuna vestanhafs,“ segir Hrafnhildur. Hún varð afhuga blaðamennskunni og fór að einbeita sér að ljósmyndun.

„Svo allt í einu sé ég að ljósmyndirnar mínar eru bara raðir af myndaseríum. Ég heillaðist af kvikmyndagerð,“ segir Hrafnhildur sem átti því láni að fagna að heimildarmyndagerð var kennd í Berkeley. „Ég tók nokkra kúrsa í því. Svo þegar ég kláraði námið þá var mikið af mjög áhugaverðum heimildarmyndagerðarmönnum. Ég fór að starfa við það, bæði klippa og taka. Ég er bara búin að vera í því síðan.“

Alltaf hark en rosalega gefandi

Það heillaði Hrafnhildi strax að geta sagt sögur bæði með myndum og í máli. „Þetta er ekki beint starf, eins og ég hef nú oft sagt. Þetta er meira lífsstíll,“ segir Hrafnhildur. „Af því að þú ert einhvern veginn alltaf í vinnunni. Þetta er ekkert sérstaklega öruggt, þannig séð. Það er alltaf hark að búa til tekjur.“

„En þetta er rosalega gefandi, sérstaklega ef þú dettur niður á gott málefni og þig langar að hreyfa við heiminum.“

„Svona breyta kvikmyndirnar mínu lífi“

Að mati Hrafnhildar getur heimildarmynd aldrei verið hlutlaus. „Maður kemur inn í allt sem maður gerir með þann farangur sem maður hefur ferðast með.“ Kvikmyndagerðarmaðurinn velji alltaf sjónarhornið og söguna. „Það er aldrei óhlutdrægt. Sömuleiðis þegar þú ert að ræða við fólk, þú ert alltaf að taka ákvarðanir og setja hluti saman og málefni. Þú ert búinn að mynda þér einhverja skoðun.“

Hún segist oft hafa byrjað með ákveðna hugmynd en komið út með aðra skoðun. „Það er kannski það besta við heimildarmyndagerð.“

Hún rifjar upp þegar kollegi hennar, Erica Marcus, fékk hana til liðs við sig í kvikmynd. Marcus er kvikmyndagerðarmaður frá Brooklyn í Bandaríkjum af gyðingaættum. „Hún var búin að gera mynd um eiginkonu Arafats og vildi fara til Líbanon til að klára þar verkefni sem hún hafði byrjað á.“

Þetta var myndin Lifandi í limbó sem segir meðal annars frá áhrifum innrásar Ísraels á Líbanon þar sem var, og er enn, um hálf milljón palestínskra Araba sem voru reknir á flótta árið 1948. „Þetta var málefni sem ég hafði aldrei hugsað mér að stíga neitt inn í. Ég vissi í raun og veru mjög lítið um það. Þannig að það var mjög mikil reynsla að fljúga þarna til Beirút og þvælast um Líbanon og fá að kynnast aðstæðum þessa fólks og mynda sér mjög sterka skoðun í kjölfarið. Ég var alls ekki með þessar hugmyndir þegar ég kom þangað,“ segir Hrafnhildur sem varð fyrir svo miklum hughrifum að hún gart vart snúið aftur til Bandaríkjanna eftir þá reynslu.

„Ég gat ekki hugsað mér að eiga heima í Bandaríkjunum.“ Reyndar var kominn tími til að fara heim, hún ætlaði sér aldrei að vera í þessi þrettán ár sem hún bjó þar. „En svona breyta kvikmyndirnar mínu lífi.“

„Það er alveg augljóst að myndir hreyfa við fólki,“ segir Hrafnhildur sem tók sérstaklega eftir því þegar hún kláraði Svona fólk. „Ég hef aldrei fengið jafn sterk viðbrögð og þá.“ Ókunnugt fólk hafi stöðvað hana úti á götu og sagt þættina hafa opnað augu þess, það hefði ekki haft hugmynd um að svona hefði veruleiki hinsegin fólks verið. „Ég held að myndir geti alveg breytt heiminum.“

Vildi ekki fela sig

Hrafnhildur ákvað að staðsetja þættina Svona fólk út frá sjálfri sér. „Það er einmitt út af því að ég vildi vera alveg 100% viss um að það yrði öllum ljóst að þetta væri algjörlega út frá mínu sjónarhorni. Vegna þess að það eru til margar útgáfur af Svona fólki, í raun og veru. Hver og einn einstaklingur er með sína útgáfu.“

„Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ef ég myndi fela sjálfa mig þá yrði þessu kannski tekið eins og hinum eina heilaga sannleika. Það eru náttúrulega margir sannleikar.“

Þetta var stór ákvörðun en henni fannst það heiðarlegt gagnvart þátttakendum í myndinni að afhjúpa sjálfa sig um leið. „En þetta tók talsverðan umhugsunartíma og leyfi frá fjölskyldunni og svona, að fá að koma með þetta persónulega innlegg.“

Þegar Hrafnhildur er spurð hvað henni þyki vænst um að hafa varðveitt á mynd segir hún það vera söguna sjálfa. „Ég held að ef ég hefði ekki sagt þessa sögu þá hefði hún horfið.“ Sagan hefði verið meira í rituðu máli og lifað áfram í bókmenntum en, „af því að hún er aðgengileg almenningi þá hreyfði hún við fólki sem átti kannski ekkert von á því að hrífast af þessu verki.“

Tilgangur heimildarmyndagerðarmannsins að varpa ljósi á ósýnilega hluti

Að mati Hrafnhildar er algjört lykilatriði að heimildarmyndir um erfiðar aðstæður fangi líka hversdagsleikann og mennskuna. „Þegar við förum þarna til Líbanon var Erica í rosalegri dramatík. Hún vildi mynda einhver skítug börn í rústum.“

„Við höfðum því láni að fagna, sem varð rosalega erfitt, að þarna vann með okkur líbönsk kona sem hafði verið landflótta,“ rifjar Hrafnhildur upp. Sú kona var verulega á móti hve mikið Marcus vildi einblína á rústirnar og ömurðina. Þarna þurfti Hrafnhildur oft að greiða úr ágreiningi þeirra.

„Fólk er bara fólk og gleði og sorgir. Það var það sem endaði í þessari mynd okkar,“ segir Hrafnhildur. „Það var leigubílstjóri sem bara trúði ekki sínum eigin augum að það væri einhver ljóshærð kona með myndavél að mynda hann. Hann fer að daðra við mig og palestínsku strákarnir eru í aftursætinu og þetta verður allt alveg rosalega fyndið. Það var ung stúlka sem var orðin ástfangin af einhverjum strák og hann fer að elta hana og við náum þessum hlutum.“

„Þetta er akkúrat það sem er svo mikilvægt, bara að sýna mennskuna,“ segir Hrafnhildur og vísar í rithöfundinn Susan Sontag, því ef fólk sér of mikið af hörmungum þá missir það áhugann. „Það fær nóg að lokum.“

Sjálf er Hrafnhildur hrifnust af kvikmyndum með persónulega nálgun. „Það finnst mér alltaf vera heiðarlegast,“ segir hún. „Ef nálgunin er á þennan persónulega, heiðarlega máta, þá yfirleitt legg ég við hlustir.“ Það sé ekki síður gott ef verið er að afhjúpa eitthvað eða varpa ljósi á veruleika sem er sjaldan í brennidepli. „Það er kannski fyrst og fremst hluti af okkar tilgangi, að sýna hluti sem eru ósýnilegir.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR