Stuttmyndin O eftir Rúnar Rúnarsson valin á Feneyjahátíðina

Stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, O (Hringur), tekur þátt í keppni á Feneyjahátíðinni sem fram fer í september. Þetta var tilkynnt í morgun. Skemmst er að minnast þess að bíómynd Rúnars, Ljósbrot, var frumsýnd á Cannes hátíðinni í maí.

O er ljóðræn frásögn af manni sem vill standa sig en hans helsta hindrun er hann sjálfur. Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverk.Myndin er um 20 mínútur að lengd.

Rúnar segir í tilkynningu:

„Skilmálar stóru hátíðanna eru að þar séu heimsfrumsýningar. Þannig að eftir Feneyjar í byrjun september að þá munu myndirnar vera sýndar saman í ákveðnum kvikmyndahúsum. Íslendingar vita hversu góður leikari Ingvar Sigurðsson er þannig að það er svo sem ekkert nýtt. En hann er alveg ótrúlegur í þessari mynd. Ein hans besta frammistaða, ef ekki sú besta. Við erum náttúrulega voðalega ánægð með þennan heiður sem myndirnar okkar hefur hlotið. Þetta er mikið til sama fólkið sem er á bakvið myndavélina sem kemur að bæði O og Ljósbrot. Við erum ótrúlega stolt af og þakklát þessu fólki. Þessi vegferð sem O og Ljósbrot eru á, eru einnig gríðaleg viðurkenning fyrir Íslenska kvikmyndagerð. Fyrir það mikla starf sem stjórnvöld og einkaaðilar hafa unnið undanfarin ár”

O er fjórða stuttmynd Rúnars sem vekur athygli á heimsvísu. Hinar þrjár eru Síðasti bærinn, Smáfuglar og Anna sem hlutu um eitthundrað alþjóðleg verðlaun og fengu einnig ýmsar aðrar viðurkenningar. Til að mynda var Síðasti bærinn tilnefnd til Óskarsverðlauna 2006. Eftir Rúnar liggja einnig kvikmyndirnar Eldfjall, Þrestir, Bergmál og Ljósbrot, sem hafa verið valdar á sumar af helstu kvikmyndahátíðum heims og unnið til fjöldan allan af verðlaunum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR