Hulda Helgadóttir: Leikmyndahönnun gefandi og félagslegt starf

Rætt við Huldu Helgadóttur leikmyndahönnuð um fagið og ferilinn í þættinum Linsan – konur í kvikmyndagerð á Rás 1.

Segir meðal annars á vef RÚV:

Fyrsta kvikmyndaverkefni Huldu var myndin Mávahlátur eftir Ágúst Guðmundsson árið 2001. Þá aðstoðaði hún við búninga. „Mér fannst það alveg svakalega spennandi,“ segir Hulda. Hún hafði áður unnið í Loftkastalanum sem bæði sviðsstjóri og að viðhalda leikmynd og búningum með fram námi sínu í iðnhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Eftir það flutti Hulda til Hollands og lærði hugmyndafræðilega hönnun við Design Academy Eindhoven. Þegar hún kom heim 2006 fannst henni einmanalegt að vinna við tölvu í eigin huga. Á þeim tíma var hönnunargeirinn á Íslandi langt frá því sem hann er í dag. „Það vantaði svolítið. Það var voðalega erfitt að fá styrki. Þetta var bara erfitt,“ segir hún.

„Þannig ég leiddist út í auglýsingar, af því að það var í raun og veru það sem mér fannst ógeðslega gaman með skóla. Sem var leikhúsið, að fá þennan nasaþef,“ segir hún. „Þetta var bara fullkomið, að vera búa til eitthvað sem tekur snöggan tíma að gera. Þú færð endaútkomuna frekar fljótt og er ofboðslega gefandi og félagslegt. Svo hef ég bara verið að gera það síðan 2006, ég hef ekki hætt.“

Besta leikmyndin sú sem þjónar sögunni
Hulda segir áskorunina við leikmyndahönnun vera að búa til góðan bakgrunn fyrir söguna og leikara. Góð leikmynd er trúverðug. „Mjög oft eru bestu leikmyndirnar þær sem þú spáir ekki í, heldur er myndin bara ofboðslega góð,“ segir hún. „Í mínum huga er leikmynd best ef hún þjónar sögunni. Hún þarf ekki endilega að vera mest skapandi leikmyndin, það fyrir mér er ekki endilega besta leikmyndin.“

Vond leikmynd getur orsakast vegna of lítils tíma eða ekki nógu mikils fjármagns. „Það er rosaleg áskorun, fjármagn og tími. Svona skilningur á hvað er verið að vinna með.“ Streituástand í samstarfi geti leitt af sér rof í tengslum milli sköpunarinnar og það geti leitt af sér verri leikmynd sömuleiðis. Stundum séu leikmyndir of unnar þannig að þær gleypi innihald sögunnar og leik.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR