DRAUMAR, KONUR OG BRAUÐ: Þurfum að skrá kvennasöguna með eigin orðum

Sigrún Vala Valgeirsdóttir leikstjóri og Agnes Eydal ræða um heimildamyndina Draumar, konur og brauð í Lestinni á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

Myndin Draumar, konur og brauð er sýnd um þessar mundir í Bíó Paradís. Fléttað er saman viðtölum við leikinn söguþráð. Saga af sýni sem þarf að sækja fyrir Hafrannsóknarstofnun og handrit sem þarf að drífa sig að klára fyrir sólstöðuhátíð á Arnarstapa, tvinnast við heimsóknir á kaffihús sem rekin eru af konum víðsvegar um landið.

Myndin, sem er fyrsta bíómynd Sigrúnar Völu Valgeirsdóttur og Svanlaugar Jóhannsdóttur, dansar á línu heimildarmyndar og leikinnar bíómyndar. Áhorfandinn er tekinn með í ævintýraríkt ferðalag um Ísland þar sem hlýlegur húmor og töfrandi tónlist tvinnast við ferðlag tveggja kvenna, þjóðsögur og minni í anda töfraraunsæis. Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Sigrúnu Völu og Agnesi Eydal, sem fer með eitt aðalhlutverka myndarinnar, í Lestinni á Rás 1.

Þurfum að skrá kvennasöguna með eigin orðum
Hugmyndina að myndinni fékk Sigrún Vala þegar hún sat úti á palli við Fjöruhúsið á Hellnum, „hjá henni Siggu. Ég var að horfa á sólina speglast í haffletinum og var búin að horfa á hana Siggu vinna í kaffihúsinu,“ lýsir Sigrún Vala. Hún hafi fylgst með henni tala í símann, ræða í símann, athuga með rjómann, taka á móti ferðamönnum og öðrum hópum og ræða við sölumenn og aðra. „Hún gerði einhvern veginn allt á sama tíma. Mér fannst þetta svo merkilegt.“

Sigrún Vala fór að velta fyrir sér vinnuframlagi Siggu Einarsdóttur til sveitarinnar, þar sem sveitungar komu margir til hennar í Fjöruhúsið sem og ferðamenn, settust niður og sögðu sögur sínar. „Og hún kannski með bakkann og tuskuna og ausuna að segja frá landi og þjóð. Allt saman heimagerðar veitingar. Ég bara sá dýrmætið í þessu fyrir okkur, fyrir ferðamennina.“

„Þetta er kannski eitthvað sem hefur aldrei beint verið dregið fram og er líka hluti af kvennasögu, hin vinnandi kona. Öll þessi kaffihús hafa sprottið upp bara frá þörf fyrir þjónustu, eins og kom fram í myndinni,“ segir Sigrún Vala. Hún hafi þó farið að velta fyrir sér hvort þetta hafi verið draumur Siggu.

„Þetta er kvennasagan okkar. Við þurfum að skrá hana og við þurfum að segja hana með okkar orðum út frá okkar sýn,“ bætir Sigrún Vala, sem er sagnfræðingur að mennt, við. „Mig hefur alltaf langað að gera það og ég bara fann þarna einhvern veginn ástríðu fyrir þessu verkefni. Það var ekkert sem gat stoppað mig í því. Þetta er líka bara sú menning sem ég er alin upp við og mér finnst hún kannski pínulítið vera að hverfa.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR