Lestin um EINSKONAR ÁST: Óbærilega leiðinleg og mistekst hrapallega að vekja meðlíðan

Kolbeinn Rastrick, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í Einskonar ást eftir Sigurð Anton Friðþjófsson og segir hana mistakast hrapallega að láta áhorfendum líða eins og það sé eitt eða neitt í húfi fyrir persónurnar.

Kolbeinn skrifar:

Myndinni mistekst hrapallega að láta áhorfendum líða eins og það sé eitt eða neitt í húfi fyrir persónur myndarinnar. Það þýðir alls ekki að eitthvað hræðilegt eigi endilega að geta átt sér stað en öllum persónum sögunnar virðist svo sem sama um hvað gerist, tilfinningalíf þeirra er alltaf óhult fyrir hvers konar tilfinningasemi eða flóknum tilfinningaríkum ákvörðunum.

Persónur myndarinnar eru einnig allar svo fáránlega einhliða að það er ógerlegt að taka þær alvarlega sem alvöru manneskjur. Persóna Emilý fær ekki að gera neitt annað en að stunda kynlíf, búa til kynlífsefni eða tala um kynlíf. Við fáum aldrei að sjá hana í öðru samhengi þar sem hún fær að vera margbrotnari manneskja. Það væri kannski hægt að réttlæta þessa ákvörðun ef hún væri unglingur en hún er fullorðin kona og það virkar niðrandi að líf hennar snúist einungis um kynveru hennar. Öll samtöl myndarinnar snúast þó um kynlíf eða kynlífsvinnu svo það er erfitt að taka bara persónu Emilý fyrir. Það myndi þó kannski ganga upp ef samræðurnar væru á einhvern hátt flóknar eða hefðu einhverja dýpt en myndinni virðist nægja að tala um kynlíf eins og það sé nógu áhugavert að það sé bara til. Það þekkja eflaust margir einhverja aðila í kringum sig sem telja það vera áhugaverðan gjörning í matarboðum eða partýi að fara með langa ræðu um kynlíf sitt, en sem betur fer er oftast gripið fram í fyrir þeim löngu áður en það nálgast þær 90 mínútur sem Einstök ást þvaðrar um það.

Það sem vantar í myndina er sérstaklega einhver umræða eða dýpri skoðun á þessum veruleika önnur en sú að hann sé bara til. Ótal myndir hafa fjallað um skaðlegan hluta klámvæðingarinnar og ber því að hrósa Einskonar ást upp að vissu marki fyrir það að taka á efninu án þess að dæma eða mála það einungis í slæmu ljósi. Það sem myndinni mistekst þó að gera er að fjalla um það jákvæða sem fylgir opnari umræðu um kynlíf og kynlífsvinnu út frá þeim sem vinna hana. Kannski er markmiðið að normalísera þessa vinnu og sýna hana eins og hverja aðra leiðinlega starfsgrein. Það að fylgjast með leiðinlegu fólki í leiðinlegu vinnunni sinni hjálpar þó lítið til þess að gera áhugaverða kvikmynd.

Í umfjöllun um reynsluheim kvenna af kynlífsverkavinnu þarf einnig annað hvort mikla fáfræði eða ákvörðun um að líta mjög viljandi fram hjá þeirri raunverulegu hættu sem í henni getur falist ef að ekki er komið inn á hana. Einu neikvæðu afleiðingarnar sem við fáum að sjá er að Emilý verður þreytt og pirruð á því að karlar séu að senda henni viðbjóðsleg skilaboð en þau tvö atriði þar sem það kemur skýrt fram eru sett fram á næstum gamansaman og léttvægan hátt. Aftur á móti fær eini karlinn í myndinni sem er að reyna að verða netkynlífsverkamaður langt atriði þar sem hann berskjaldar sig fyrir Emilý og lýsir frammistöðukvíða sínum og Emilý verður pirruð og reið út í hann, eitthvað sem er ólíkt persónu hennar fram að þessu í myndinni.

Aftur, þá er þar með alls ekki sagt að það þurfi að sýna ofbeldi eða einhvern viðbjóð en það væri alla vega áhugavert að heyra einhverjar dýpri umræður um hvernig sögupersónurnar tækla hlutgervinguna sem þessari vinnu fylgir, eða hvað það er sem heillar þær við að halda áfram þrátt fyrir hana. Það virðist ekki einu sinni vera neinn peningur í þessu starfi þar sem að Emilý talar sífellt um að vera að fara á hausinn. Það eina sem viðkemur ekki kynlífi í myndinni er hliðarsagan um fjármál Emilý en hún snýr öll að því að hún sé að gera skattaskýrsluna sína með móður sinni. Nú vitum við öll að það er fátt jafn spennandi í þessu lífi og skattar og er það því mjög merkileg ákvörðun að eyða svona miklum tíma myndarinnar í þá umræðu.

Ef eitthvað er að marka sýn Einskonar ástar á veruleika æsku þessa lands ættu foreldrar og eldri kynslóðir að tempra áhyggjur sínar. Samkvæmt myndinni virðast þær hörmungar sem varað hefur verið við frá örófi alda ekki væntanlegar á næstunni þó að ungt fólk búi sjálft til kynlífsefni á netinu. Myndin gefur þó ríkari ástæður fyrir því að unga kynslóðin byrji að örvænta. Ef þetta er hinn drepleiðinlegi veruleiki sem við búum við, getið þið farið að huga að því sem fyrst að afþakka öll þau boð í partý og matarboð sem ykkur á eftir að berast á næstunni.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR