Gunnur Martinsdóttir Schlüter hlaut Evu Maríu Daníels verðlaunin fyrir FÁR sem einnig var valin besta stuttmyndin á Stockfish

Stockfish hátíðinni lýkur í dag, en í gærkvöldi voru afhent verðlaun hátíðarinnar. Athöfnin fór fram á undan útsendingu Eddunnar í Gufunesi, en Evu Maríu Daníels verðlaunin voru veitt í útsendingunni sjálfri.

Eftirtalin verk hlutu verðlaun á Stockfish 2024:

EVU MARÍU DANIELS VERÐLAUNIN

Til að heiðra minningu Evu Maríu Daniels, kvikmyndaframleiðanda, ást hennar á kvikmyndum og Íslandi verða veitt sérstök verðlaun í tengslum við 10 ára afmæli bransa- og kvikmyndahátíðarinnar Stockfish. Það eru þau Riva Marker, framleiðandi og formaður dómnefndar og eiginmaður Evu Maríu, Moritz Diller, sem veittu Evu Maríu Daníels verðlaunin í Sprettfisk keppninni. Handhafi Evu Maríu Daniels verðlaunana í ár er Fár eftir Gunni Martinsdóttur Schlüter.

LEIKIÐ EFNI

Fár
Gunnur Martinsdóttir Schlüter
Sigurvegari Sprettfisks-verðlaunanna í ár sýnir bæði næmni og hugrekki í nálgun sinni og vekur upp áleitnar spurningar um siðferði, ábyrgð og samfélag. Kvikmyndataka, hljóðmynd og sterkur og látlaus leikur, koma saman í skýrri listrænni sýn sem endurspeglar kjarna verksins, sem áhorfanda er svo treyst fyrir að túlka fyrir sig. Leikstjóri nýtir sér vel knappan ramma stuttmyndaformsins og skapar bæði margrætt og skýrt verk fyrir vikið.

HEIMILDAMYNDIR

Samkenndarskápar
Rakel Jónsdóttir
Hverju höfum við tapað sem samfélag? Og hvernig finnum við það aftur? Hvernig endurvekjum við gildi – og styrkjum þau? Með akademískan bakgrunn og listræna nálgun að vopni varpar höfundur ljósi á hið manneskjulega í borgarsamfélaginu. Getum við endurheimt það sem við höfum týnt með því að deila reglulega mat með manneskjum sem við höfum aldrei hitt? Sam kenndarskápar eftir Rakel Jónsdóttur er stutt og listræn heimildamynd sem byggir á stærri rannsókn höfundar á svokölluðum frískápum á Íslandi og menningunni í kringum þá. Myndin gengur afar vel upp, ekki síst vegna þess hvernig form og nálgun styðja við umfjöllunarefnið og veita áhorfendum um leið rými til að leiða hugan að einu stærsta vandamáli samtímans: matarsóun.

TILRAUNAVERK

Sálufélagar
Alda Ægisdóttir
Sálufélagar dró okkur inn í heim sem að okkur fannst bæði frumstæður og undarlega kunnuglegur. Við vorum umvafin dásamlegu sjónarspili lita og „lífrænna“ formgerða, heilluð af verunum sem að við hittum fyrir og gáttuð á nánum samskiptum lífsformanna. Við mættum okkar eigin tilfinningum varðandi sálufélaga, bæði fornum og samtímalegu konsepti og okkur fannst skapandinn framkvæma það sem við ætlumst til af tilrauna-fólki okkar og ná að fullgera eitthvað á brún hengiflugsins.

TÓNLISTARMYNDBÖND

Problems
Flesh Machine
Tónlistarverkið valið af dómnefndinni er einstakt og grípandi. Einkenni þess eru léttleiki, húmor og þema sem áhorfandinn tengir við. Það skein skært í flokknum fyrir frumleika sinn, tón og karaktera sem eru á sama tíma áþreifanlegir og furðulegir. Tónlistarmyndband sem er einlægt í ófullkomleika sínum og tekst að vekja gleði og tilfinningar frá byrjun til enda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR