Kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish fer fram í tíunda sinn 4.-14. apríl. Í tilefni af 10 ára afmæli hátíðarinnar er frítt inn á allar sýningar.
Dagskráin í ár er fjölbreytt og metnaðarfull, allt frá heimildamyndum um flótta kynslóða Úkraínumanna frá stríði yfir í vísindatrylli um dýrslegt eðli mannsins.
Fjöldi innlendra og erlendra gesta mætir á Stockfish í ár. „Við viljum fylla bíósalina af forvitnu fólki, ungu, miðaldra og gömlu, af öllum kynjum og alls staðar frá. Fólki sem kann að meta góðar, vel sagðar sögur, stórbrotna myndræna söguleysu, rómantík, angist eða bara hversdagslegan harmleik eða gleði,“ segir Hrönn Kristinsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Lögð er áhersla á að kynna verðlaunamyndir frá ýmsum löndum og þjóðum og áhorfendum er boðið að taka þátt í opnum umræðum við aðstandendur myndanna.
„Við metum mikils kraft þess samstarfs, nýsköpunar og frumlegheita sem Stockfish hefur tekist að skapa og vonum að hátíðin verði knúin áfram af sama krafti í framtíðinni,“ segir Carolina Salas, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Dönsk kvikmyndagerð í kastljósi
Fjöldi danskættaðra mynda er á dagskrá hátíðarinnar, þar á meðal Toves værelse eftir Martin Zandvliet og Kalak eftir Isabellu Eklöf. Löng hefð er fyrir samstarfi íslenskra og danskra kvikmyndaframleiðenda en opnunarmynd hátíðarinnar, Eternal eftir Ulaa Salim, er einmitt dönsk/íslensk framleiðsla. Aðstandendur myndanna verða viðstaddir og ræða við áhorfendur að frumsýningu lokinni.
Tvenn heiðursverðlaun verða afhent á hátíðinni. Þau verða veitt tveimur konum fyrir framúrskarandi framlag til kvikmyndaiðnaðarins. Þau hljóta Lynne Ramsay, leikstjóri, fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar á alþjóðavetvangi og Laufey Guðjónsdóttir, sem var forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands 2003-2023, fyrir framlag sitt til íslensks kvikmyndaiðnaðar.
Pallborðsumræður og meistaranámskeið á bransadögum
Samhliða hátíðinni fara fram bransadagar, þar sem fagfólki í kvikmyndageiranum, íslenskum sem erlendum, gefst tækifæri til að tengjast sín á milli og mynda sterk og gagnleg sambönd. Meðal viðburða á dagskrá bransadaga eru pallborðsumræður um kvikmyndastefnu 2020-2030, umræður um sjálfbæra kvikmyndagerð og meistaranámskeið í heimildamyndagerð og kynning á íslenskum kvikmyndaverkefnum í vinnslu.
Dagskrá bransadaga er að finna á vef Stockfish.