spot_img

Evu Maríu Daniels verðlaunin veitt á Stockfish í fyrsta sinn

Stockfish hátíðin mun veita upprennandi kvikmyndagerðarfólki Evu Maríu Daniels verðlaunin fyrir framúrskarandi kvikmyndagerð. Vinningshafinn fær 1,5 milljónir króna til að vinna að næsta verkefni sínu.

Hin nýju verðlaun eru í minningu framleiðandans Evu Maríu Daniels sem lést í júní síðstliðnum eftir erfiða baráttu við krabbamein. Verðlaunin eru veitt í samstarfi við eiginmann hennar, Moritz Diller og soninn Henry. Þeim er ætlað að minnast afreka Evu og áframhaldandi framlags hennar til næstu bylgju kvikmyndagerðarmanna á Íslandi.

Verðlaunin hlýtur einn framleiðandi eða leikstjóri í Sprettfisk stuttmyndakeppninni sem fram fer árlega á Stockfish.

Sprettfiskur er einn af hornsteinum Stockfish og varpar ljósi á upprennandi íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Í ár hafa 20 stuttmyndir orðið fyrir valinu og skiptast í fjóra flokka: besta leikna myndin, besta heimildarmyndin, besta tónlistarmyndbandið og besta tilraunamyndin.

Riva Marker, framleiðandi og samstarfskona Evu til margra ára, stýrir dómnefndinni sem er skipuð hópi samstarfsmanna og kollega Evu. Þeirra á meðal eru Elfar Aðalsteins leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi, Nigel Godrich framleiðandi og tónskáld, Oren Moverman framleiðandi, Jessie Cohen kynningarstjóri, Sascha Drews leikstjóri og fjárfestir, Will O’Connor handritshöfundur og fjárfestir, Gunnar Ólafsson leikstjóri, og Börkur Sigþórsson handritshöfundur og leikstjóri.

“Nálgun Evu í kvikmyndaframleiðslu var að hlusta á og styðja við fólk sem var sannarlega hæfileikaríkt.” segir Riva Marker. ,,Við munum aldrei fá að vita hvaða fleiri fallegu sögur hún hefði fært áhorfendum, en við erum stolt yfir að geta í nafni hennar veitt hæfileikaríku fólki verðlaun og hvatningu, eitthvað sem við trúum og vitum að Eva hefði verið ánægð með.”

Verðlaunin undirstrika áhrifin sem Eva hafði á iðnaðinn og vekja athygli á mikilvægi þess að segja sögurnar – og að segja þær fyrr en síðar, segir í tilkynningu frá Stockfish.

Eva María (5. júlí 1979 – 30. júní 2023) framleiddi níu kvikmyndir á ferli sínum, sem allar voru keyptar af stórum dreifingarfyrirækjum og frumsýndar á virtum kvikmyndahátíðum, þar á meðal Berlinale, TIFF, Sundance og fleirum.

Nýjustu kvikmyndir hennar eru meðal annars Reality, í leikstjórn Tinu Satter með Sydney Sweeney í aðalhlutverki; Joe Bell sem Reinaldo Marcus Green leikstýrir með Mark Wahlberg og Reid Miller í aðalhlutverki og Hold the Dark í leikstjórn Jeremy Saulnier með Jeffrey Wright í aðalhlutverki.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR