FOXTROT í Bíótekinu

Bíótekið sýnir sunnudaginn 3. desember nýuppgert eintak af kvikmyndinni Foxtrot (1988). Jón Tryggason leikstjóri og Karl Óskarsson kvikmyndatökumaður ræða við áhorfendur eftir sýningu.

Sama dag verða einnig sýndar meistaraverkið City Lights (1931) um ógæfusama en hugmyndaríka flækinginn, Charlie Chaplin og Sensuela (1973) finnsk költ kvikmynd eftir leikstjórann Teuvo Tulio.

Dagskráin á sunnudag er sem hér segir:

15:00
City Lights 1931
Ógæfusami en hugmyndaríki flækingurinn, Charlie Chaplin, verður ástfanginn af blindri blómasölustúlku. Þegar hann heyrir að það eigi að bera blómastúlkuna og ömmu hennar út af heimili þeirra ákveður hann að reyna með öllum ráðum að koma þeim til hjálpar. Það gengur vægast sagt illa þar til hann fyrir tilviljun hittir drukkinn milljónamæring. Þrátt fyrir að tími þöglu myndanna hafi verið liðinn ákvað Charlie Chaplin samt sem áður að gera þessa mynd eins og hann gerði best, þögla. Kvikmyndin er af mörgum talin hans besta verk.

17:00
Foxtrot 1988
Spennumynd og íslensk vegamynd sem gerist á sandauðnum Íslands þar sem baráttan er upp á líf og dauða. Aðalpersónur myndarinnar eru hálfbræðurnir Tommi, óharðnaður unglingur, og Kiddi sem er fallin fótboltastjarna. Kiddi sem starfar við peningaflutninga tekur Tomma með sér í slíka ferð þvert yfir landið. Eftir að þeir skiljast frá samfylgdarmönnum sínum ákveða bræðurnir að halda ferðinni áfram en þá eru þeir ekki lengur tveir í bílnum. Ferðalag þessara þriggja getur ekki endað nema á einn óhugnanlegan veg. Jón Tryggvason, leikstjóri myndarinnar og Karl Óskarsson kvikmyndatökumaður, munu spjalla við áhorfendur að sýningu lokinni.

Hér er fjallað um kvikmyndina í 3. þætti Íslands: bíólands.

19:30
Sensuela 1973
Finnsk költ kvikmynd eftir leikstjórann Teuvo Tulio. Kvikmyndin var hans síðasta á löngum og farsælum kvikmyndaferli og var hún 10 ár í vinnslu. Hún var jafnframt fyrsta finnska kvikmyndin sem var bönnuð í finnskum kvikmyndahúsum fyrir dónaskap. Það var óheppilegt þar sem hans helsta þema í kvikmyndagerð var að tala gegn kynferðislegri hlutgervingu kvenna. Myndin segir frá lappastúlku sem bjargar brotlentum nasista og þau fella hugi saman. Þau fara til borgarinnar þar sem nútíminn fer um þau ómildum höndum og við tekur tímabil niðurlægingar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR