Bíótek Kvikmyndasafnsins sýnir næsta sunnudag í Bíó Paradís ýmis brot úr safni Vigfúsar Sigurgeirssonar sem sýna fólk og staði yfir langt tímabil í sögu Íslands. Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands, leiðir sýninguna.
Dagskrá Bíóteksins sunnudaginn 19. nóvember er sem hér segir:
15:00
Ísland á filmu: Vigfús Sigurgeirsson 1936 – 1975
Vigfús Sigurgeirsson var einna fyrstur íslenskra kvikmyndagerðarmanna til að gera landkynningamyndir um Ísland sem sýndu þjóð í leit að sjálfstæði. Hann hafði mikil áhrif á hvernig embætti forseta Íslands var túlkað sem sérlegur ljósmyndari embættisins. Mikilvægt innlegg Vigfúsar fyrir menningararf þjóðarinnar var að festa á á filmu hverfandi atvinnuhætti. Myndir hans spanna breitt tímabil um miðja 20. öldina og sýna samfélagið vaxa og dafna í gegnum mikilvæga atburði og fallegar svipmyndir. Gunnar Tómas Kristófersson mun leiðasýninguna áfram og er sýningin er liður í að kynna niðurstöður rannsókna Kvikmyndasafns Íslands á ævistarfi Vigfúsar.
17:00
Rakkauden risti 1946
Finnsk, dramatísk kvikmynd eftir Teuvo Tulio sem segir frá Riitu, dóttur gamaldags og strangs föður sem er vitavörður í afskekktri sveit. Riita hittir ríkan skipbrotsmann sem heillast af henni og hún ákveður að strjúka með honum til stórborgarinnar. En í staðinn fyrir glæsilegt stórborgarlíf stendur hún eftir svikin og niðurlægð og neyðist til að stunda vændi til að eiga í sig og á, þangað til hún kynnist listamanni sem segist elska hana.
19:30
Aguirre, the Wrath of God 1972
Dramatísk og margverðlaunuð stórmynd úr smiðju eins virtasta leikstjóra kvikmyndasögunnar, Werner Herzog. Klaus Kinski leikur eitt aðalhlutverkið, grimman og geðveikan hermann, sem fer fyrir leiðangri spænskra aðalsmanna á sextándu öld niður Amazonfljótið í leit að hinni goðsagnakenndu El Dorado, eða gullborginni. Myndin einkennist af átökum manna við náttúruna og vægðarlausum birtingarmyndum valdhroka. Tónlist myndarinnar samdi þýska krautrock- og tilraunasveitin Popol Vuh sem vann mikið með Herzog.