Þóra Dungal látin

Þóra Dungal er fallin frá, 47 ára að aldri. Hún lék annað aðalhlutverkið í kvikmyndinni Blossi (1997) eftir Júlíus Kemp.

Heimildin skýrir frá:

Þóra var landsþekkt undir lok 10. áratugarins. Hún hóf feril sem fyrirsæta 18 ára gömul. Skömmu síðar rakst handritshöfundur nýrrar kvikmyndar, sem átti eftir að fá heitið Blossi, á hana í sjoppu og bauð henni síðar annað aðalhlutverkanna í myndinni. Þar lék hún Stellu, sem ásamt Robba, eða Róberti Marshall, ferðaðist um landið og lenti í ýmsum ævintýrum. „Þau Robbi og Stella kynnast á ferðalagi sínu ótrúlegustu persónum, ekki þessum þungbúnu efnishyggjupönkurum sem flestir Íslendingar eru,“ sagði Þóra um myndina í viðtali í DV í ágúst 1997.

„Vinkona mín til næstum 20 ára, Þóra Dungal, er fallin frá. Við hittumst þegar ég var nýorðin edrú á Íslandi og hún vildi svo sannarlega verða það líka. Það var alltaf barátta fyrir hana. Það brýtur mig alltaf niður þegar fíknin tekur fallegar, góðar sálir,“ segir Rósa Guðmundsdóttir, ein þeirra sem minnast Þóru á samfélagsmiðlum í dag. 

Meðal þeirra sem kveðja Þóru á Facebook eru kvikmyndagerðarmaðurinn Jóhann Sigmarsson, vinur hennar. „Hún elsku Þóra mín Dungal er fallin frá. Það var alltaf mjög góður vinskapur á milli okkar. Hún var náttúrutalent af Guðs náð, svo skemmtileg sem manneskja og hjarthlý var. Ég á ótrúlega góðar minningar og fallegar um hana. Aðstandendum hennar votta ég mína dýpstu samúð. Farvel fuglinn minn.“

Kvikmyndin Blossi stóð hins vegar eftir sem minnisvarði um X-kynslóðina, þá sem kom á undan aldamótakynslóðinni, og þá tilvistarkreppu sem oft hefur verið kennd við hana. Um myndina sagði leikstjórinn, Júlíus Kemp, í viðtali við DV árið 2018, að ætlunin hefði verið að ná utan um tíðaranda unga fólksins á þeim tíma sem myndin var gerð. „Hugmyndin var að gera mynd um X-kynslóðina sem við erum sjálfir hluti af. Okkur fannst sú kynslóð vera stefnulaus og almennt áhugalaus um flest allt nema kannski sjálfa sig.“

Eftir leik í Blossa hélt Þóra sig að mestu frá sviðsljósinu. Þóra var fædd árið 1976 og varð 47 ára fyrr í vor. Hún lætur eftir sig tvær dætur.

Hér að neðan er stutt klippa úr þáttaröðinni Ísland: bíóland þar sem fjallað er um Blossa.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR