Kvikmyndahátíðin í Cannes hefst í dag og stendur yfir til 27. maí. Íslenska stuttmyndin Fár, eftir Gunni Martinsdóttur Schlüter, er sýnd í aðaldagskrá hátíðarinnar í ár, þar sem hún er á meðal 11 mynda sem keppa um gullpálmann í stuttmyndaflokki. Tilkynnt verður um hvaða mynd hlýtur verðlaunin við lokaathöfn hátíðarinnar 27. maí.
Þetta er þriðja árið í röð sem íslenskt kvikmyndaverk er hluti af opinberu vali kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, var sýnd í Un Certain Regard í fyrra og árið 2021 var Dýrið, í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar, sýnd í sama flokki.
Fár fjallar um einstakling sem tekst á við aðstæður sem reyna á siðferði mannskepnunnar í heimi sem er aftengdur við náttúruna. Gunnur leikstýrir, skrifar handrit og fer með aðalhlutverk myndarinnar. Aðrir leikarar eru Jörundur Ragnarsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.
Myndin er framleidd af Rúnari Inga Einarssyni og Söru Nassim fyrir framleiðslufyrirtækið Norður. Eli Arenson sér um kvikmyndatöku og klipparar eru Brúsi Ólason og Guðlaugur Andri Eyþórsson. Hljóðhönnun er í höndum Björns Viktorssonar og Haraldar Þrastarsonar. Rebekka Ingimundardóttir sér um leikmynd og búningahönnuður myndarinnar er Hulda Halldóra Tryggvadóttir.
Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er Salaud Morisset.
Upprennandi framleiðendur frá Íslandi kynntir til leiks
Þrír íslenskir framleiðendur taka þátt í vinnustofum sem fara fram samhliða hátíðinni.
Þær Dögg Mósesdóttir, sem nýverið stofnaði framleiðslufyrirtækið Northern Wave, og Bylgja Ægisdóttir, frá danska framleiðslufyrirtækinu Scanbox, eru á meðal framleiðenda sem valdir voru í Young Nordic Producers Club, þar sem 24 framleiðendur frá Norðurlöndum fá tækifæri til að styrkja tengslanet sitt og fá ráðgjöf frá reyndu kvikmyndagerðarfólki um framleiðslu, dreifingu, sölu og markaðssetningu.
Þá er Atli Óskar Fjalarsson, stofnandi framleiðslufyrirtækisins Empath, á meðal upprennandi framleiðanda sem kynntir eru til leiks á hátíðinni undir merkjum New Producers Room.
Norrænar stuttmyndir í brennidepli
Þrjár íslenskar stuttmyndir verðar sýndar í Short Film Corner hluta Cannes-hátíðarinnar. Myndirnar eru hluti af flokknum Cool Shorts from the North sem Scandinavian Films, samtök kvikmyndastofnanna á Norðurlöndunum, standa að.
Það eru myndirnar Chef de Partie, í leikstjórn Ágústs Þórs Hafsteinssonar, Samræmi í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur, og Óvissuferð í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur.
Nýjar íslenskar kvikmyndir á markaði
Í ár verða þrjár íslenskar kvikmyndir sýndar í markaðshluta hátíðarinnar: Northern Comfort, í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Á ferð með mömmu, í leikstjórn Hilmars Oddssonar, og Napóleónsskjölin, í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar.