Ágúst Guðmundsson hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Eddunni 2023 fyrir sitt afar mikilvæga og einstaka framlag til íslenskrar kvikmyndalistar.
RÚV segir svo frá:
Það var standandi lófaklapp þegar Ágúst gekk á svið.
Hann rifjaði upp þegar hann var að taka upp Land og syni og hann varð hugsi yfir stöðu sinni. það átti að gera bíómynd sem átti að draga stóran hluta þjóðarinnar í bíó og miðaverð skyldi vera tvöfalt venjulegt bíóverð. „Ekkert okkar hafði unnið við bíó áður en við vorum með sjónvarpsreynslu,“ segir hann. Búnaðurinn var þunglamalegur en eftir á að hyggja finnst honum tæknileg fátækt gefa myndinni ákveðið yfirbragð. „Þetta er kannski dogma síns tíma.“
Síðan eru árin liðið og margt hefur breyst. Hann nefnir þrjú atriði.
„Það fyrsta, samkynhneigðir hafa verið teknir í sátt og nú finnst okkur furðulegt að það hafi ekki gerst löngu fyrr. Númer tvö, konur hafa bylt þjóðfélaginu en söngva- og gleðimyndin Með allt á hreinu sá það reyndar fyrir. Þriðja byltingin er svo mennigarbylting. Hvaða listgrein hefur blómstrað betur en kvikmyndagerðin á þessu tímabili?“
Menningarverðmæti séu hin raunverulegu verðmæti og til að hlúa að þeim þurfi að hlúa að tungumálinu. „Ef við viljum halda áfram að tala íslensku þá verðum við að halda áfram að framleiða menningarefni á íslensku. Ekki síst allskyns lifandi myndir fyrir kvikmyndahús, sjónvarp og aðra myndmiðla.“
Hann segir ljóst að það muni áfram vera þörf fyrir íslenskar kvikmyndir jafnvel þó við vitum ekki hvernig heimurinn verður. „Verða kvikmyndahús? Verða bara símar, það sem kemur á eftir símum? Þið reiknið væntanlega með að ferill minn sé á enda runninn, vonið það líka það verður meira eftir í sjóðnum handa ykkur. En sé ferlinum lokið er mér efst í huga þakklæti. Þakklátur fyrir tækifærin, að hafa fengið að starfa við að búa til íslenskt bíó.“
Hægt er að horfa á Ágúst veita verðlaununum viðtöku hér.
Í kynningu Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar um Ágúst segir:
Hann fæddist árið 1947 og er lykilmaður í þeirri miklu sköpunarbylgju sem varð í kringum 1980 og er stundum kölluð íslenska kvikmyndavorið. Hann hefur allar götur síðan verið í hópi okkar helstu og farsælustu kvikmyndaleikstjóra.
Á sjöunda áratuginum nam hann við Menntaskólann í Reykjavík og tók þar þátt í stofnun Kvikmyndaklúbbs framhaldsskólanna. Varð sá félagsskapur honum mikill innblástur, enda voru sýnd þar mörg meistaraverkin. Um leið var þessi tími einstakur í kvikmyndasögunni fyrir þróttmikla nýsköpun og nýja nálgun á gerð kvikmynda þar sem persónuleg listræn sýn var höfð í fyrirrúmi.
Um tíma stóð hugur hans til þess að verða leikari og hann stundaði nám við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Þegar hann fékk síðan hlutverk í sjónvarpsleikriti stóð hann ásamt fjölda manns umkringdur tækjum og tólum í myndveri hins nýstofnaða Sjónvarps við Laugaveg. Á þeirri stundu læddist sú hugsun að honum að kvikmyndaleikstjórn væri eitthvað sem ætti vel við hann.
Á Landsbóksafninu rakst hann á auglýsingu um þá nýstofnaðan kvikmyndaskóla í Bretlandi, The National Film School. Hann sótti um og lauk þaðan námi í kvikmyndaleikstjórn árið 1977. Það varð síðan hlutskipti Ágústs Guðmundssonar ásamt öðrum í sömu hugleiðingum að finna kvikmyndalistinni farveg í íslenskri menningu.
Eftir heimkomu gerði hann meðal annars sjónvarpsmyndina Skólaferð sem byggð var á reynslu hans og skólafélaga hans. Stuttmyndin Lítil þúfa kom skömmu síðar.
Fyrsta bíómynd hans, Land og synir, var frumsýnd í janúar 1980 og er eitt helsta kennileitið í íslenskri kvikmyndasögu, þar sem hún markar upphafið að samfelldri framleiðslu íslenskra bíómynda. Myndina gerði hann í samvinnu við Jón Hermannsson framleiðanda og Indriða G. Þorsteinsson rithöfund og fyrsta heiðursverðlaunahafa ÍKSA, en myndin var byggð á samnefndri skáldsögu hans.
Næstu árin rekur hver myndin aðra. Stórmyndin Útlaginn var frumsýnd 1981, sú fyrsta og hingað til eina sem byggð er á Íslendingasögu, Gísla sögu Súrssonar. Næst kom söngva- og gleðimyndin Með allt á hreinu sem hann gerði í samvinnu við Stuðmenn og Grýlurnar og er án efa er vinsælasta kvikmynd okkar Íslendinga fyrr og síðar. Enn í dag er hún reglulega sýnd í kvikmyndahúsum fyrir fullu húsi. Gamanmyndin Gullsandur birtist síðan 1984 þar sem gert er góðlátlegt grín að íslenskri þjóðarsál.
Eftir þetta gerir Ágúst meðal annars húmoríska ástarsögu fyrir Sjónvarpið, Ást í kjörbúð og síðan stóra alþjóðlega þáttaröð, Nonna og Manna, sem gerð var í samvinnu Norðmanna, Þjóðverja og Íslendinga og byggð á víðkunnnum bókum Jóns Sveinssonar um samnefnda bræður. Þáttaröðin hefur verið sýnd víða um heim og er enn sýnd reglulega. 1990 gerir hann svo viðamikla ævintýraþætti, The Sea Dragon sem sýndir voru á ITV sjónvarpsstöðinni í Bretlandi.
Eftir að hafa gert sjónvarpsmyndina Litbrigði jarðarinnar eftir samnefndri sögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, snýr Ágúst aftur á hvíta tjaldið árið 1998 með dramatísku gamanmyndinni Dansinn. Myndin var byggð á skáldsögu hins færeyska William Heinesen. Þremur árum síðar kom ísmeygileg þroskasaga, Mávahlátur, sem byggð var á samnefndri skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur. 2004 tók Ágúst aftur saman við Stuðmenn í kvikmyndinni Í takt við tímann, sem var nokkurskonar framhald Með allt á hreinu. Loks frumsýndi hann árið 2013 gamanmyndina Ófeigur gengur aftur með Ladda í aðalhlutverki.
Kvikmyndir Ágústs eru eins fjölbreyttar og þær eru margar, en um leið eiga þær sameiginlegt skýra húmaníska sýn og forvitni um mannlega hegðun auk þess sem látlaus gamansemin er aldrei langt undan.
Það er okkur sönn ánægja að veita Ágústi Guðmundssyni heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir sitt afar mikilvæga og einstaka framlag til íslenskrar kvikmyndalistar.