Almennar sýningar á Volaða land eftir Hlyn Pálmason hefjast í kvikmyndahúsum í dag. Myndin verður sýnd í Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Álfabakka og Bíó Paradís.
Myndin hefur verið sýnd víða um heim síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðasta vor. Í Frakklandi munu um 110 þúsund manns hafa séð hana og hún hefur einnig gengið vel í Hollandi og á Ítalíu. Alls hefur hún tekið rétt yfir milljón dollara í tekjur á heimsvísu.
Hátíðarforsýning á myndinni fór fram í Bíó Paradís síðastliðið miðvikudagskvöld að viðstöddu fjölmenni.
Næstu daga munu Hlynur Pálmason leikstjóri, Anton Máni Svansson framleiðandi og aðalleikarnir tveir, þeir Ingvar E. Sigurðsson og Elliott Crosset Hove, fara hringinn í kringum landið með myndina þar sem hugmyndin er að gefa áhorfendum tækifæri til að spjalla við aðstandendur að sýningu lokinni. Þessar sýningar verða sem hér segir:
Ísafjörður: Ísafjarðarbíó, 10. mars kl.20
Patreksfjörður: Skjaldborgarbíó, 11. mars kl.12
Akureyri: Sambíóin Akureyri, 11. mars kl. 20
Seyðisfjörður: Herðubíó, 12. mars kl. 20
Volaða land er dönsk/íslensk framleiðsla. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.
Með helstu hlutverk fara Elliott Crosset Hove, Ingvar E. Sigurðsson, Vic Carmen Sonne, Jacob Lohman, Hilmar Guðjónsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir.