Tökur eru hafnar suður í Pýreneafjöllum á kvikmynd sem byggð er á skáldsögu Auðar Övu, Ör sem kom út 2016. Heiti bíómyndarinnar er Hotel Silence en það er einmitt heiti skáldsögunnar á ensku og fleiri tungumálum.
Fréttablaðið greinir frá:
„Ég hef fengið nokkur tilboð í bókina, það hafa nokkrir framleiðendur og leikstjórar viljað gera mynd eftir henni en ég hef svolítið dregið lappirnar og sagt nei. Ég var svona erfiður höfundur en svo er ég nú að róast í því og lagast,“ segir Auður Ava en þetta er fyrsta kvikmyndin sem er gerð eftir bók hennar.
Leikstjóri myndarinnar er Léa Pool sem er þekktur svissneskur-kanadískur leikstjóri með langan feril að baki.
„Ég hef lengi verið aðdáandi kanadískra leikstjóra og mér finnst þeir vera að gera alveg rosalega flottar myndir í frönskumælandi Kanada, sérstaklega þeim megin. Ég þekkti til verka Léu Pool þannig að ég sagði bara já,“ segir Auður Ava.
Með aðalhlutverk fer kanadíski leikarinn Sébastien Ricard sem hlotið hefur fjölmörg verðlaun auk þess sem svissneska leikkonan Lorena Handschin fer með hlutverk.
Tökutímabilið er frá nóvember 2022 til febrúar 2023 en gert er ráð fyrir að kvikmyndin verði frumsýnd í árslok 2023. Spurð um hvort hún verði eitthvað viðriðin framleiðsluna segir Auður Ava:
„Þetta er annað hvort eða hjá mér. Annað hvort segi ég nei, en þegar ég segi já þá læt ég þetta algjörlega í hendurnar á öðrum listamönnum. Leikstjórinn Léa Pool er hokin af reynslu og hún gerir handritið og ég veit í sjálfu sér ekkert um hennar áherslur.“
Ör hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hefur verið þýdd á mörg tungumál. Auður Ava segir þetta vera þá bók hennar sem vakið hefur hvað mestan áhuga á alþjóðavísu.