Leikstjórnin fékk að víkja fyrir framleiðslu á hálftíma

Arnar Benjamín Kristjánsson framleiðandi ræðir við Fréttablaðið um myndina The Mother the Son the Rat and the Gun sem hann framleiddi í Bretlandi og er nú sýnd í Bíó Paradís.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Spennumyndin The Mother the Son the Rat and the Gun frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Framleiðandi myndarinnar segir eftirminnilegt samtal við kollega í faginu hafa vakið áhuga hans á framleiðslu umfram leikstjórn.

Kvikmyndaframleiðandinn Arnar Benjamín Kristjánsson útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012. „Ég framleiddi fyrstu kvikmyndina mína Reykjavik Porno árið 2016. Hún var sýnd á fullt af hátíðum og gekk vel þar, en ég held að það hafi komið þrjátíu manns á hana í bíó hérna,“ segir Arnar og hlær.

Næst lá leið Arnars í MET Film School í London sem er hluti af University of West London. „Ég lærði þar framleiðslu og viðskiptafræði.“ Þegar Arnar kom heim frá Bretlandi höfðu stjórnendur Zik Zak samband og buðu honum vinnu. „Ég er búinn að vera í framkvæmda- og fjármálastjórnarverkefnum hjá þeim síðan,“ segir hann.

The Mother the son the rat and the gun er að sögn Arnars búin að vera aðgengileg alls staðar, nema hér á landi. „Okkur langaði að sýna hana á Íslandi líka og gefa fólki séns á að sjá hana. Myndin hefur gengið mjög vel á Norðurlöndum og verið aðgengileg á streymisveitunni Viaplay.“

Leikstjóri myndarinnar heitir Philip Staal og er bekkjarbróðir Arnars frá London. „Skólinn okkar var í Ealing Studios, sem er elsta kvikmyndaver Evrópu. Skólinn er með Stage 5, þar sem margar gamlar klassískar myndir hafa verið skotnar.“ Ladykillers frá árinu 1955 er þar á meðal. „Svo var verið að skjóta The Darkest Hour með Gary Oldman þegar ég var þar í námi.“

Arnar segir Philip hafa komið að máli við hann með bíómynd á prjónunum. „Hann sagðist ekki nenna að bíða í tíu ár eftir að gera bíómynd. Hann var búinn að fara yfir IMDb hjá mér og búinn að sjá að ég hafði gert myndir eins og Reykjavik Porno og Grimmd fyrir engan pening,“ segir framleiðandinn.

Að sögn Arnar samþykkti hann boðið um leið. „Ég kunni vel við ­Philip og svo fannst mér spennandi að prófa að gera mynd í London.“

Aðspurður um dæmigert verkefni á borði framleiðanda svarar hann: „Það var miklu erfiðara að fá leyfi til að gera hluti. Hérna heima er bara hægt að hringja í lögregluna og þau lána manni bíla. Úti er það miklu erfiðara og kostar fullt af pening. Það eru líka reglur í London að ef þú ert með þrífót úti á götu þarftu að fá leyfi.“

Hefur það ekki áhrif á tíðni handheld-mynda í London?

„Jú, ég myndi segja það. En það sem aðallega kom mér á óvart var til dæmis þetta með leikarana. Við auglýstum þetta sem low-budget mynd þar sem var ekki mikið borgað. En samt voru svo margir leikarar sem sóttu um að fá að vera með. Hérna heima er mjög erfitt að fá leikara,“ segir Arnar.

„Þessi mynd fjallar um það, þegar maður sem er yfir glæpagengi er myrtur og konan hans tekur við. Það er einhver svona rotta – uppljóstrari innan glæpagengisins. Fyrri helming myndarinnar er verið að finna út hver rottan er og í miðri mynd snýst það við. Þá fáum við að sjá það frá sjónarhóli uppljóstrarans,“ segir Arnar.

„Þegar ég var nemi fór ég í starfsþjálfun hjá Zik Zak og mætti vinkonu minni Birgittu Björnsdóttur framleiðanda. Hún spurði: Hvað er planið? Ég sagði henni að mig langaði að verða leikstjóri. Þá sagði hún að heimurinn þyrfti ekki á fleiri leikstjórum að halda. Við þurfum framleiðendur. Svo fékk ég hálftíma fyrirlestur um af hverju ég ætti að verða framleiðandi,“ segir Arnar og hlær.

„Það seldi mér þetta eiginlega, þannig að ég hef ekki haft neinn áhuga á að leikstýra síðan. Ef myndin floppar kennir enginn mér um það. En það er stress að halda utan um peninga og svona.“

Þú hlýtur að vera góður í því?

„Já, ég held það,“ segir Arnar Benjamín léttur í bragði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR