Kvikmyndaskóli Íslands fagnaði 30 ára afmæli sínu síðastliðinn föstudag í húsnæði skólans á Suðurlandsbraut.
Fjallað er um afmælið á mbl.is:
Rektor skólans, Börkur Gunnarsson, segir að afmælisboðið hafi gengið vel og að gaman hafi verið að Guðni Th. Jóhannesson forseti hafi mætt þar sem hann hafi svo góða nærveru.
„Hann hélt öfluga ræðu þar sem hann hvatti okkur áfram og skoðaði síðan skólann og mætti á gjörningasýningu hjá nemendum. Síðan skar hann auðvitað fyrstu sneiðina af kökunni,“ segir Börkur og bætir við að gaman hafi verið að sjá gamla nemendur og kennara mæta til að styrkja tengslin við sinn gamla skóla.
Fyrstu námskeiðin undir nafni Kvikmyndaskóla Íslands voru haldin haustið 1992 að Vatnsstíg 10. Nemendur voru 23 og kennarar og fyrirlesarar 17. Námskeiðin stóðu yfir í 3 mánuði og lauk með framleiðslu tveggja leikinna stuttmynda.
Haustið 2003 veitti Tómas Ingi Olrich, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skólanum svo formlega viðurkenningu ráðuneytisins á tveggja ára námsbraut í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi. Frá árinu 2004 hefur skólinn útskrifað um 600 nemendur.