Ágúst Guðmundsson: Listamenn alltaf í einhverju basli hvort sem er

Ágúst Guðmundsson leikstjóri gerir skerðingar til Kvikmyndasjóðs að umtalsefni í pistli í Fréttablaðinu.

Pistill Ágústs er svohljóðandi:

Helstu fréttir úr ráðuneyti menningarmála eru að framlag til íslenskra kvikmynda verði skorið verulega niður. Ástæðan mun vera sú að fyrirsjáanlegar eru háar greiðslur til erlendra fyrirtækja sem hingað koma til að nýta íslenska tökustaði.

Þessu tvennu á ekki að rugla saman. Endurgreiðslurnar til erlendu fyrirtækjanna eru innspýting til að örva viðskiptalífið. Stuðningur við íslenska kvikmyndagerð er allt annað og mun fjölþættara mál. Vissulega örvar sú starfsemi atvinnulífið, en til viðbótar kemur menningarlegt vægi í samfélagi sem reiðir sig í vaxandi mæli á myndmiðla. Frá morgni til kvölds eru Íslendingar, rétt eins og aðrir jarðarbúar, að horfa á lifandi myndir og flestar eru þær á ensku. Eðlileg mótspyrna felst í því að efla framleiðslu á kvikmyndum þar sem fólk talar móðurmálið.

Það kostar að vera menningarþjóð. Það kostar að halda úti Þjóðleikhúsi og Sinfóníuhljómsveit, við gerum það samt og þykir sjálfsagt. En kvikmyndagerðin er rekin með öðrum hætti en ofangreindar stofnanir. Það er ekki auðvelt að skera niður stóran hlut af rekstrarfé Þjóðleikhússins. Að skerða framlög til Kvikmyndamiðstöðvar virðist hins vegar einföld lausn á fjárhagsvanda ráðuneytisins. Fyrir barðinu verða að vísu fyrirtæki úti í bæ og listamenn á ýmsum sviðum, fólk sem alltaf er í einhverju basli hvort sem er, en hefur reyndar byggt upp atvinnuveg sem hagfræðingar hafa sýnt fram á að sé þjóðhagslega hagkvæmur og vel það. Og þar með má, sé öllu til haga haldið, setja spurningarmerki við kostnaðinn sem ríkið tekur á sig af innlendri kvikmyndagerð. Væri ekki nær að tala um fjárfestingu sem borgar sig með tímanum?

Á sama tíma stígur formaður Íslenskrar málnefndar fram með vondar fréttir: íslenskan á í vök að verjast gegn ágengni enskunnar. Hann bendir einmitt á áhrifin af amerísku afþreyingarefni.

Sjónvarpsstöðvarnar reyna eftir megni að sinna íslenskri þáttagerð – og ekki bara af hugsjón: viðskiptavinir þeirra vilja það. Íslenskt sjónvarpsefni fær einfaldlega meira áhorf en það erlenda. Jú, við skiljum ensku ágætlega og sum okkar geta jafnvel talað hana ljómandi vel, en það ágæta tungumál kemur ekki í stað móðurmálsins. Upp er runninn sá tími að við verðum að leggja verulega rækt við íslenskuna og augljós leið til þess er að auka framleiðslu á innlendum kvikmyndum og sjónvarpsefni þar sem fjallað er um líf okkar sem búum á þessari eyju á okkar eigin tungumáli.

Þessi niðurskurður er boðaður þegar íslensk kvikmyndagerð er einmitt í talsverðri uppsveiflu. Niðurskurðurinn væri skiljanlegur ef greinin hefði ekki staðið undir væntingum, en það er öðru nær.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR