Baltasar: „Finnst alltaf eins og heimurinn sé að farast“

Baltasar Kormákur er í viðtali við Síðdegisútvarp RÚV vegna frumsýningar á nýjustu mynd sinni, Beast.

Á vef RÚV segir:

„Ég varð covid-kóngur fyrir algjöra tilviljun“
Tækifærið til að leikstýra stórmynd í Afríku kom óvænt upp í hendurnar á Baltasar í heimsfaraldrinum. Hann vann að þáttaröðinni Kötlu fyrir Netflix þegar faraldurinn skall á og fékk þau skilaboð að hætta þyrfti framleiðslu. Það gat Baltasar ekki sætt sig við. Hann leitaði því lausna til að geta haldið áfram. „Ég er fyrsta production í heiminum til að byrja aftur,“ segir hann.

Baltasar þróaði kerfi þar sem starfsfólki var skipt í hópa eftir starfssviði og allir starfsmenn báru armbönd í vissum lit til að greina hópana í sundur. „Það kom bara úr sundlauginni í Kópavogi. Í gamla daga þá var alltaf „allir með gula bandið upp úr“, rifjar hann upp. Þessi lausn þótti ákaflega farsæl. „Þá fara allir að hringja í mig, hvernig gerðir þú þetta? Ég gerði eitthvað vídjó fyrir Netflix, How to work in Covid, sem var dreift á allar aðrar pródúksjónir.“ Baltasar bætir við: „ég varð covid-kóngur fyrir algjöra tilviljun.“

Það var útsjónarsemi hans í vinnunni í heimsfaraldrinum sem kom honum í samband við Universal-kvikmyndasamsteypuna. Kennslumyndband hans um lausnir við vinnu í faraldrinum var dreift víða og fyrr en varir var hann farinn að tala við fulltrúa Universal. Kvikmynd um ljón í Afríku ber á góma og Baltasar vissi samstundis að hann hefði áhuga. „Svo fæ ég þetta tilboð og það er bara ekkert í mér, engin gangrýnin hugsun, það er bara já. Ég vil fara til Afríku og gera mynd um ljón. Mig langar að gera þetta.“

Dreymdi um Afríku frá sex ára aldri
Skömmu eftir að það lá fyrir að Baltasar tæki upp kvikmyndina Beast í Afríku var hann í mat hjá móður sinni. Hún dró upp úr geymslunni úrklippubók frá því að Baltasar var barn sem var full af myndum af ljónum í Afríku. „Ég mundi þetta þegar að hún sýnir mér þetta. Ég var búinn að gleyma þessu. Ég ætlaði að vera dýrafræðingur í Afríku þegar að ég var sex ára.“ Baltasar var hugfanginn af ljónum sem barn og draumurinn bjó innra með honum til fullorðinsára.

„Ódýrasti miði sem þú færð til Afríku“
Öllum þessum árum seinna rættist draumur Baltasars um ævintýri í Afríku. Hann varði sex mánuðum í Limpopo þar sem fílar mættu honum þegar hann gekk út. „Maður var bara í frumskóginum,“ segir hann.

Það hafi skipt sköpum fyrir kvikmyndina að hún væri tekin upp í Afríku, í stað kvikmyndavers. Menning heimsálfunnar sé alltumlykjandi og sjáist greiðlega í kvikmyndinni. Baltasar lagði mikið upp úr löngum kvikmyndaskotum og segist lítið hafa klippt. Það sem fyrir augu ber er því sannleikanum samkvæmt. Fólk sem dreymir um að ferðast til Afríku fær því eitthvað fyrir skildinginn þegar horft er á nýju myndina. „Ódýrasti miði sem þú færð til Afríku,“ segir Baltasar kankvís.

Sex milljarða mynd
Kvikmyndin Beast skartar stórstjörnunni Idris Elba í aðalhlutverki. Hann leikur mann sem fer ásamt börnum sínum til Suður-Afríku og ferðalagið tekur óvænta stefnu þegar að mannýgt ljón herjar á fjölskylduna.

Baltasar segir það flókið að vinna með dýr í kvikmyndum. Dýraverndunarsamtök láta til sín taka í baráttu fyrir mannúðlegri meðferð dýra í kvikmyndaiðnaðinum eins og annar staðar. „Í þessu umhverfi í dag þá er ekki hægt að láta ljón ráðast á fólk. Það er ekki fræðilega mögulegt.“ Ljón kvikmyndarinnar er því búið til í eftirvinnslu, sem tók um ár eftir að tökum lauk. Því var gætt í hvívetna að hafa allt sem raunverulegast þegar að brellurnar voru unnar. Það er langt og skapandi ferli að búa til fullskapað ljón á hvíta tjaldinu og það þarf að ákveða hverja hreyfingu dýrsins til að hægt sé að búa þær til. Í tökuferlinu voru Baltasar og tökulið með lifandi ljón sér til hliðsjónar. „Við vorum með ljón allan tímann með okkur sem var náttúrulega stórhættulegt. Sem var referenace.“

Það tók um tvö ár að klára kvikmyndina frá hugmynd að frumsýningu. Tökuferlið sjálft var um hálft ár í Afríku og eftirvinnslan tók svo um ár. Aðspurður segir Baltasar að verkefnið hafi kostað um 40 milljónir dollara, eða um það bil sex milljarða íslenskra króna. „ Það er ekki dýrt á þeirra mælikvarða.“ Hann segir flókið að gera kvikmynd en að bersýnilega sjái kvikmyndaverin hag sinn í því að framleiða stórmyndir á borð við þessa, því þau fá peninga sína til baka.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR