Heilt yfir hafa gagnrýnendur hlaðið hana lofi og prísi og talað um „einstakan orginal“ eða „kvikmyndalist í hæsta gæðaflokki“ og annað í þeim dúr. Fáar myndir á yfirstandandi hátíð hafa hlotið slíkar viðtökur og sumir tala um að hún sé helsta uppgötvun hátíðarinnar. Ýmsir spyrja afhverju myndin er ekki í aðalkeppninni (myndin er í Un Certain Regard flokknum), aðrir segja það næsta mál á dagskrá.
Gagnrýni fagmiðlanna má finna hér. Hér eru svo nokkrar aðrar umsagnir:
Hlynur Pálmason’s feature film, as strange as it sounds, is an ambitious and rewarding synthesis of the western, the rural melodrama, a colonial critique, an adventure picture, an anti-religious tale, a story of growing national identity and a study in how landscape affects human psychology. There is clearly added historic weight and significance for Icelandic and Danish audiences, too. But that it works a treat beyond such borders is testament to what’s on offer. Godland is a cinematic work of art if ever there was one. – The London Economic.
Franska tímaritið Les Inrockuptibles talar um „krýningu mikils kvikmyndahöfundar hins efnislega“ og segir myndina hafa átt að vera í aðalkeppninni, umfram ýmsar aðrar sem þar eru.
Í spænska miðlinum Caiman Ediciones er myndinni lýst sem „dýrmætum fjársjóði“ og fyrstu meiriháttar uppgötvun hátíðarinnar að þessu sinni. Þar er einnig spurt hversvegna mynd af þessu kaliberi sé ekki í aðalkeppninni.
Það er ánægjulegt að fylgjast með þessum viðbrögðum, en þetta er ekki óalgengt þegar myndir Hlyns koma fram. Þær fá gjarnan mikið lof og á þær er hlaðið verðlaunum.
Þannig hlaut fyrsta bíómynd Hlyns, Vetrarbræður (2017), á þriðja tug alþjóðlegra verðlauna og aðrar 30 tilnefningar, auk níu Robert verðlauna dönsku kvikmyndaakademíunnar (m.a. besta mynd, besti leikstjóri, besta myndataka ofl.). Og önnur myndin, Hvítur, hvítur dagur (2019), var frumsýnd á Critics’ Week í Cannes, þar sem Ingvar E. fékk verðlaun sem rísandi stjarna (!), myndin hlaut hátt á annan tug verðlauna víða um heim eftir það og yfir 20 tilnefningar til viðbótar, auk sex Edduverðlauna.
Nú á ég eftir að sjá Volaða land. En út frá fyrri verkum Hlyns, stuttum og lengri, er ljóst að hann er einstakur hæfileikamaður sem hefur sterk tök á því sem mestu skiptir, samþættingu forms og innihalds. Líkt og í allri kvikmyndalist sem rís hátt eru myndir hans ekki aðeins um það sem gerist heldur ekki síður um hvernig það gerist út frá forsendum listformsins – og síðast en ekki síst hvernig þessir kraftar togast á. Myndir hans eru víðsfjarri einhverskonar lægsta almenna samnefnara, þær gera kröfur um þátttöku, athygli. En áhorfandinn uppsker ríkulega í margslunginni innlifun.
Cannes lýkur á laugardag. Auðvitað veit maður aldrei með dynti dómnefnda, en ég á svona frekar von á ánægjulegum tíðindum.