Morgunblaðið um ÚT ÚR MYRKRINU: Við verðum að tala um þetta

„Gefur þeim sem eftir sitja rödd,“ segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um heimildamyndina Út úr myrkrinu eftir Helga Felixson og Titti Johnson.

Jóna skrifar:

Nánast allir þekkja einhvern sem hefur fyrirfarið sér, vinnufélaga, bekkjarsystkini, vin eða ættingja, en talið er að í kringum hvern einstakling sé allt að 100 manns sem þarf að hlúa að. Það má því segja að við sem þjóð berum með okkur stórt sameiginlegt hjartasár. Allt að 50 manns svipta sig lífi á hverju ári hér á landi og talið er að um 500 til 600 sjálfsvígstilraunir séu gerðar árlega. Þetta eru sláandi tölur sem erfitt er að meðtaka. Af hverju er ekki meira rætt um sjálfsvíg?

Markmið heimildarmyndarinnar Út úr myrkrinu , eftir Titti Johnson og Helga Felixson, er að opna umræðu um hið átakanlega efni sjálfsvíg. Titti og Helgi eiga langan feril að baki í kvikmyndagerð og eru í ráðandi hlutverkum við gerð myndarinnar. Leikstjórn, handrit og klipping var í höndum þeirra beggja en þau eru jafnframt framleiðendur fyrir hönd Iris Film.

Út úr myrkrinu hefst með sláandi skilaboðum: „Frá því að gerð þessarar myndar hófst árið 2016 hafa í það minnsta 211 einstaklingar fallið fyrir eigin hendi á Íslandi.“ Við taka fallegar myndir af náttúrunni og tónlist eftir óskarsverðlaunahafann Hildi Guðnadóttur en Jacob Felixson sá um hljóðvinnsluna. Upphaflega var önnur tónlist í myndinni sem þau voru ekki nógu sátt við. Hildur kom því inn í verkefnið á lokametrunum og sem betur fer. Tónlistin er mjög í takt við það erfiða málefni sem verið er að takast á við; hún er áberandi en ekki þrúgandi og passar vel með náttúrulífsmyndunum.

Út úr myrkrinu gefur þeim sem eftir sitja rödd. Myndin er samansafn viðtala við fimm viðmælendur, flestir þeirra eru ættingjar eða vinir sem sitja eftir. Áhorfendur eru ekki mataðir með tölfræðilegum upplýsingum um sjálfsvíg heldur er um að ræða mjög persónulega heimildarmynd. Eflaust hefði verið áhugavert að sjá hvað samtök líkt og PIETA, Sorgarsamtökin, Rauði krossinn og fleiri hafa lagt á vogarskálarnar eða heyra frá fagfólki af hverju fólk fremur sjálfsvíg og hvernig hugsanlega megi koma í veg fyrir það. Þetta er hins vegar ekki slík heimildarmynd og af ástæðu. Í gegnum viðtöl við ættingja og vini, sem hafa misst ástvin á þessa vegu, verður til mjög einlægt samtal. Mörg þeirra sem rætt er við miðla áfram einhverju sem þau hafa lært hjá sálfræðingum og fagaðilum og gera það á mjög mannlegan máta. Við finnum til með þeim sem eftir sitja og fögnum þeim sem lifðu af og virkar það þar af leiðandi sem ákveðin forvörn.

Inn á milli þess sem áhorfendur fá að heyra sögur aðstandenda eru skot af náttúru Íslands, sem í fyrstu virðist ekki eiga að vera í neinu samhengi við efni myndarinnar. Þegar betur er að gáð felst hins vegar merking í þessum atriðum en túlka má þessa áherslu á íslensku náttúruna sem eins konar ábendingu um að sjálfsvíg sé samfélagslegt vandamál á Íslandi. Náttúrulífsmyndirnar verða síðan nauðsynlegar þegar líður á myndina sem eins konar pása fyrir áhorfendur til þess að jafna sig áður en næsti tekur til máls enda mjög átakanleg heimildarmynd sem erfitt er að tárast ekki yfir. Hún er hins vegar ekki einungis sorgleg heldur einnig mjög falleg og hjálpa þar náttúrulífsmyndirnar og tónlistin til.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR