Leikstjórarnir Arni & Kinski vinna nú að heimildamyndinni Þetta er eðlilegt sem fjallar um fjöllistahópinn GusGus, sem þeir stofnuðu 1995. Myndinni er ætlað að fanga litríkan en dramatískan feril og innri átök hópsins. Áætluð frumsýning er veturinn 2023.
Verkefnið, sem áætlað er að kosti um 27 milljónir króna, hefur nú þegar hlotið styrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og Arionbanka. Einnig hefur verið sett af stað hópfjármögnun á Karolina Fund og er markmiðið að safna tuttugu þúsund evrum. Aðdáendur og velunnarar geta lagt sitt af mörkum með því að kaupa einn af átta einstökum aðdáendapökkum eða með því að gefa opin fjárframlög í gegnum Karolina Fund síðuna.
Arni & Kinski, Stefán Árni og Siggi Kinski, byrjuðu ferill sinn sem kvikmyndagerðarmenn snemma á 10. áratug síðustu aldar. Árið 1995 gerðu þeir stuttmyndina Nautn sem markaði upphaf listahópsins GusGus.
GusGus fagnaði nýlega 25 ára afmæli sínu með fjórum uppseldum tónleikum í Eldborg, í Hörpu, þar sem Arni & Kinski tóku þátt í tónleikum með hljómsveitinni í fyrsta sinn síðan 2001.
Í dag líta stofnfélagarnir tveir til baka á 27 ára, litríka en órólega sögu GusGus.
“Afmælistónleikarnir sýndu að GusGus hefur aldrei verið sterkari, mótsagnakenndari og meira lifandi. Eins og sagan sýnir, þá er það stórhættulegt fyrir tónlistarfólk að verða 27 ára. Nú þegar barnið er 27 ára, er ekki seinna vænna en að kafa ofan í hjarta GusGus; komast inn að kjarnanum, kanna myrkrið og ljósið, fagna og heilast,” segja þeir Árni og Kinski.
Heimildamyndin mun innihalda gamalt myndefni í bland við nýtt sem verður kvikmyndað á árinu (meðal annars með fyrrverandi hljómsveitarmeðlimum). Myndin mun fanga sögu og innri heim GusGus á hátt sem aldrei hefur verið sýndur áður.
Framleiðendur eru Kjól & Anderson ehf og Hrefna Hagalín hjá Arctic Productions í samvinnu við Republik.