Morgunblaðið um LEYNILÖGGU: Stórfyndin grínmynd

"Mikil sjálfsírónía einkennir kvikmyndina og teymið gerir hiklaust grín að sjálfu sér," segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í umsögn sinni í Morgunblaðinu um Leynilöggu Hannesar Þórs Halldórssonar.

Jóna skrifar:

Frumraun Hannesar Þórs Halldórssonar sem kvikmyndaleikstjóra, Leynilögga , slær í gegn hérlendis sem og erlendis og ekki að ástæðulausu. Ætla má að margir Íslendingar séu komnir með nóg af kvikmyndum um karlmannskrísur í sveitinni sem svo margir íslenskir leikstjórar hafa verið hugfangnir af. Teymið sem skrifar handrit Leynilöggunnar gætir þess að taka sig ekki of alvarlega og úr því kemur einföld grínmynd sem kemur í góðar þarfir eftir raunir liðinna mánaða. Leynilögga er eins konar grínútgáfa af hasarmyndagreininni en ein frægasta mynd þeirrar tegundar frá seinni árum er Hot Fuzz (2007) eftir Edgar Wright.

Kvikmyndin fjallar um lögregluna Bússa (Auðunn Blöndal) sem tekst ekki einungis á við hættulegustu glæpamenn borgarinnar heldur einnig sína eigin innri fordóma en hann lítur á kynhneigð sína sem ógn við orðspor sitt í samfélaginu sem harðasta lögregla Reykjavíkur. Bússi er neyddur til þess að starfa með þekktustu lögreglu Garðabæjar, naglanum Herði (Egill Einarsson), við að leysa flókið mál þar sem glæpahópur undir forystu fyrrum fyrirsætunnar Rikka (Björn Hlynur Haraldsson) hefur brotist inn í flesta banka Reykjavíkur án þess að stela nokkru. Fyrir Bússa eru tilfinningar hans í garð Harðar ekki síður hættulegar en glæpahópurinn sem þeir eltast við.

Söguþráðurinn er að mörgu leyti gamaldags. Hinsegin karlmaður í skápnum á karllægum vinnustað er saga sem hefur verið sögð oft áður en myndin er í heild sinni ein stór klisja og ætlar sér ekkert meira. Það er þó að vissu leyti ánægjulegt að báðar aðalpersónurnar, Bússi og Hörður, eru hinsegin og gert opinbert í myndinni að Hörður sé pankynhneigður sem er sjaldgæft í kvikmyndum. Leikarvalið á þessum tveimur persónum er einnig áhugavert í ljósi baksögu leikaranna, til dæmis hefur Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillz, lengi verið talinn táknmynd neikvæðrar karlmennsku hérlendis. Gillz hefur myndað sér ákveðna menningarlega stöðu hérlendis og í stað þess að sjá persónurnar Bússa og Hörð kyssast sjáum við gagnkynhneigðasta mann Íslandssögunnar kyssa annan karlmann og í því felst grínið. Hugsanlegt er að Gillz sé með þessu að gera grín að sjálfum sér sem táknmynd neikvæðrar karlmennsku. Hins vegar má velta fyrir sér hvort verið sé að gefa hinsegin fólki hljómgrunn í íslenskri kvikmynd eða verið að nýta hinsegin fólk í gríni. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir áhorfenda.

Það er hægt að færa rök fyrir því að myndin sé að einhverju leyti leið ákveðinna einstaklinga í hópnum sem stendur að baki myndarinnar til að lagfæra orðspor sitt sem hefur orðið til í kjölfar oft ósmekklegra brandara sem þeir hafa látið falla út í samfélagið. Þannig koma þeir áhorfendum á óvart með framsæknum hugmyndum. Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, nefnir þetta atriði í dómi sínum um myndina: „Egill Einarsson er fantaflottur sem Garðabæjarlöggan og sýnir á sér óvæntar hliðar sem afvopna eiginlega þá sem komu fyrir fram með fordóma um hrútastemningu og karlrembu…“ Hins vegar er líka hægt að líta svo á að kvikmyndin sé umdeild leið þeirra til þess sýna sig í jákvæðara og betra ljósi.

Mikil sjálfsírónía einkennir kvikmyndina og teymið gerir hiklaust grín að sjálfu sér eins og til dæmis þegar Bússi skiptir af útvarpsstöðinni FM 95,7 yfir á X-ið í bílnum sínum og segir við Hörð að í hans bíl sé einungis hlustað á X-ið. En Auðunn Blöndal og Gillz, sem leika aðalpersónurnar, eru báðir útvarpsmenn á FM 95,7. Stór hluti grínsins felst einnig í því að kvikmyndin gerist á Íslandi, einu friðsælasta landi heims, þar sem allir þekkjast. Þetta kemur til dæmis fram í því að Rikki og Hörður hafa áður unnið saman í fyrirsætubransanum. Það er í raun mjög fyndið að sjá íslenska lögreglumenn skjótandi fólk með byssu eins og það sé daglegt brauð hér á landi og erfitt er að taka Bússa alvarlega þegar að hann segir: „Reykjavík er ekki lítil saklaus borg lengur“.

Þá vekur athygli að sumir Íslendingar eru nógu stórir karakterar í raunheimi til þess að fá að leika sig sjálfa. Má þar nefna Jón Gnarr sem fær aftur að prófa hlutverk borgarstjóra í myndinni. Margir leikaranna eru ekki starfandi leikarar en fagmenn á sínu sviði, til dæmis Jón Jónsson söngvari og Rúrik Gíslason, knattspyrnumaður og fyrirsæta, enda reiðir Hannes sig ekki á leikhæfileika viðkomandi heldur frægð þeirra hérlendis. Að þessu leyti mætti líkja kvikmyndinni við myndir eftir Adam Sandler þar sem hann fær fræga vini sína til þess að taka þátt í að gera þrælódýra kvikmynd sem skilar svo góðri summu í vasann. Þess má geta að Leynilögga er nú með tekjuhæstu frumsýningu á íslenskri mynd frá upphafi en miðasölutekjurnar frumsýningarhelgina námu alls 15.941.412 kr.

Að mörgu leyti kemur það á óvart að kvikmyndin hafi komist inn á fimm erlendar kvikmyndahátíðir og hafi verið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno þar sem hún keppti um ein virtustu kvikmyndaverðlaun heims, Gyllta hlébarðann. Hins vegar ef við horfum fram hjá orðspori og stöðu sumra leikaranna í samfélagslegu samhengi þá er hér um að ræða stórfyndna grínmynd sem minnir að mörgu leyti á Hot Fuzz og hefur án efa tekist að lífga upp stemminguna á þessum (oft grafalvarlegu) kvikmyndahátíðum. Það verður spennandi að sjá hvað Íslendingurinn, sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi, tekur sér næst fyrir hendur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR