Lestin um STELLU BLÓMKVIST 2: Langþráð hvíld frá raunsæi í íslensku sjónvarpsefni

Ekkert lát er á morðum í Reykjavík í annarri syrpu Stellu Blómkvist, sjónvarpsefni sem er ólíkt öllu öðru sem sést hefur á íslenskum markaði, segir Katrín Guðmundsdóttir sjónvarpsrýnir Lestarinnar á Rás 1.

Katrín skrifar:

Íslendingar munu halda Ólympíuleikana árið 2050 og ríkisstjórnin hefur hrundið af stað átaki til að fjölga þjóðinni upp í eina milljón fyrir herlegheitin. Bíddu nú við? Stella Blómkvist, harðsvíraði lögfræðingurinn með réttlætiskenndina ríku, er snúin aftur í Sjónvarp Símans 703 dögum eftir að hafa slitið ástarsambandi sínu við forsætisráðherra Íslands. Síðan þá hefur ríkisstjórnin meðal annars gengið frá samningum við Kína, sem hefur keypt risavaxið landsvæði til að reisa stærstu kínversku flotastöðina utan Asíu og nýtt ágóðann til að stofnsetja og fjármagna nýtt íslenskt lögregluembætti; LLR eða Landslögreglu ríkisins – einkaher forsætisráðuneytisins.

Þessi seinni þáttaröð er með svipuðu sniði og sú fyrri, sem kom út árið 2017. Um er að ræða sex fjörutíu mínútna þætti úr smiðju Sagafilm sem innihalda þrjár sjálfstæðar sögur sem byggja lauslega á bókaflokknum, það er að segja ein saga fyrir hverja tvo þætti. Heiða Reed fer á ný með titilhlutverkið og Kristín Þóra Haraldsdóttir, Þorsteinn Guðmundsson og Sara Dögg Ásgeirsdóttir eru í helstu aukahlutverkum. Jóhann Ævar Grímsson heldur utan um skrifin ásamt góðum gestum og rétt eins og áður leikstýrir Óskar Þór Axelsson, þó aðeins fjórum þáttum í þetta skiptið og spreytir Þóra Hilmarsdóttir sig á tveimur.

Ekkert lát er á morðum í Reykjavík og áhrifa alþjóðavæðingar gætir hvarvetna í samfélaginu. Sýrlenskir hælisleitendur eru hnepptir í ánauð af fjölþjóðlegu glæpagengi, Ísrael og Palestína mætast óvænt gegn þýskum nasistum og Ísland verður skyndilega vettvangur kalds stríðs Bandaríkjanna og Kína. Þótt Stella sé nú orðin ljóska er hún vígdjörf sem aldrei fyrr. Tvíkynhneigða tálkvendið beitir sér enda af hörku fyrir málstað þeirra sem minna mega sín og er að venju drullusama um afleiðingar gjörða sinna.

Líkt og í fyrri þáttaröðinni er nóg um að vera hjá söguhetjunni sem sólhendist milli vísbendinga í spennandi spæjaraverkefnum. Þetta er mikill kostur fyrir nútímaáhorfendur, enda krefjumst við flest orðið nær linnulausrar örvunar þegar afþreyingar er notið. Atburðarásin er hröð og nóg er af uppbroti fyrir bæði augu og eyru. Mikið er lagt upp úr stemmingunni í söguheiminum sem sker sig algjörlega úr þegar litið er til íslenskrar kvikmyndasögu og minnir hvort tveggja á ofursvala myndasögu og dularfullan rökkurtölvuleik.

Gufustrókar teygja sig upp úr holræsum og endurvarp litskrúðugra neonljósa er alltumlykjandi á götum úti. Reykjavík er greinilega ekki lengur krúttlegur höfuðstaður lýðræðisparadísarinnar Íslands heldur er hún sóðaleg heimsborg sem hefur að geyma hvers kyns ómenni og aumingja. Inni við er heldur ekkert sem minnir á íslenskan fasteignamarkað eins og við þekkjum hann. Þvert á móti er sviðsmyndin smíðuð sérstaklega til að þjóna dulúðlegri stemmingu söguheimsins og fær ímyndunaraflið því að leika lausum hala, til að mynda í íbúð Stellu þar sem gríðarstór gluggi með myrkri borgarsýn og rigningarsudda setur svip sinn á persónuna sem þar býr. Búningar LLR og húsakostur þeirra í Hafnarhúsinu draga einnig upp sterkt dystópískt myndmál, sem og mótmæli almennra borgara í fölleitu umhverfi Borgartúns á meðan óstöðvandi, og að því er virðist nánast ómannlegar, mótorhjólamorðmaskínur veita þáttunum nostalgískt vísindamyndalegt ívaf.

Tökustíllinn rammar stemminguna svo inn, ýmist með bjöguðu sjónarhorni sem brenglar tengsl viðfangsefnisins við raunsæi eða íkonískum römmum í teiknimyndastíl, eins og til dæmis þegar Stella birtist óvænt með heima hjá Sólmundi að næturlagi með sígarettu í munnvikinu. Það má segja að það sé dálítill Blade Runner fílingur í gangi sem hámarkast á hljóðrásinni, þar sem taktfastir hljóðgervlar magna upp þessa dulúð söguheimsins ásamt því að stýra spennunni á atburðarásinni. Viðvarandi sögumannsrödd Stellu veitir áhorfendum svo bæði nauðsynlegar upplýsingar um framvinduna og innsýn í spæjaralífið sem þrátt fyrir róstusamt yfirborð er í raun mjög einmanalegt og einstrengingslegt.

Stella Blómkvist er sjónvarpsefni ólíkt öllu öðru sem komið hefur fyrir á íslenskum markaði. Það er alveg ótrúlega hressandi að sjá íslenska kvikmyndagerðarmenn fá listrænt frelsi til að taka áhættu og fara einu skrefi fram úr grámyglulega raunsæinu sem tröllriðið hefur innlendri kvikmyndagerð svo árum skiptir. Samt ganga þættirnir ekki einu sinni það langt í fantasíunni sem þeir draga upp mynd af því bæði samfélagið og persónurnar eiga sér öll einhverskonar hliðstæðu eða skuggamynd í raunveruleikanum.

En hvað um Kötlu? Katla var nefnilega ekki beint fantasía heldur strangheiðarlegur vísindaskáldskapur, það er, kvikmyndagrein sem hefur þó heldur ekki fallið í náð Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fram til þessa. Þeir voru aftur á móti bæði mjög þungir og alvarlegir, sem er annars stemming sem virðist vera í sérstöku uppáhaldi þarna niðri á Hverfisgötu. Katla gæti því hafa sýnt stjórnvaldinu að það sé í raun innlend eftirspurn eftir kvikmynduðum frásögnum handan verulegra atburða en ég held að Stella Blómkvist sanni að hér sé líka sveltur markaður fyrir söguheima handan hins bragðdaufa veruleika sem við kennum gjarnan við íslenskt samfélag.

Öllum er hollt að taka sjálfum sér og list sinni ekki of alvarlega. Allavega við og við. Í því felst einmitt sjarmi Stellu Blómkvist sem sækir styrk en ekki feil í óraunhæfar persónur og aðstæður sem áhorfendur vita að ganga ekki upp. Túlkun Sögu Garðars á áhrifavaldinum Myrru er gott dæmi um þetta en þar fer ástsæll grínisti með hlutverk siðlauss ofbeldishrotta sem fellur engan vegin að sterkri gagnstæðri ímynd hennar. Þetta er reynt annað slagið í íslenskri kvikmyndagerð og virkar sjaldnast. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Gói Karlsson lék ógeðslega vondan dópsala í Lof mér að falla (2018), sem gekk ekki upp vegna þess að góðlátleg ímynd hans sem leikari og opinber persóna yfirgnæfði hlutverkið og rauf um leið skynjun áhorfenda á raunsæjan söguheiminn. Einhvern veginn gengur þetta samt upp hjá Sögu vegna þess að söguheimurinn er ekki sérlega raunsær því fær ímynd hennar meira svigrúm í túlkuninni.

Afþreyingargildi Stellu Blómkvist felst fyrst og fremst óhefðbundnum og óraunsæjum söguheimi sem er bæði þörf og langþráð viðbót við íslenska kvikmyndaflóru. Þættirnir eru bæði vandaðir og kærulausir, fyndnir og dramatískir og svalir og kjánalegir. Hljómar kannski skringilega en er samt í fullu samræmi við hughrifin sem harðsoðinn frásagnarstíll og fantasía kalla fram á svona svona litlum markaði. Fögnum því að hér sé að verða til smá rými fyrir öðruvísi kvikmyndagerð, njótum þess að horfa upp á íslenskt kvikmyndagerðarfólk ryðja nýjar brautir og reynum svo að hafa dálítið gaman af lífinu.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR