Erlingur Óttar Thoroddsen mun skrifa og leikstýra bandarískri endurgerð myndar sinnar Rökkur sem kom út 2017. Erlingur lauk tökum nýverið á kvikmyndinni The Piper fyrir Millennium Media með Charlotte Hope og Julian Sands í aðalhlutverkum.
Framleiðandi myndarinnar er Óskarsverðlaunahafinn Dustin Lance Black (Milk, J. Edgar, When We Rise) en hann vann Óskarsverðlaun fyrir handritið að kvikmyndinni Milk árið 2009 og skrifaði síðast myndina Rustin sem Barack og Michelle Obama framleiða fyrir Netflix.
Meðal annarra framleiðanda eru J. Todd Harris og Marc Marcum (The Trial of the Chicago 7, The Kids Are Alright) ásamt XYZ og Wayward Entertainment.
Rökkur, sem mun kallast Rift á ensku, fjallar um tvo menn sem kljást við endalok sambands síns undir óhugnalegum kringumstæðum þegar þeir einangrast saman í afskekktum sumarbústað um miðjan vetur.
Rökkur var frumsýnd árið 2017 og voru framleiðendur hennar Erlingur, Búi Baldvinsson og Baldvin Kári Sveinbjörnsson fyrir Myrkraverk Productions ehf. Með aðalhlutverk fóru Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson.
Deadline greindi fyrst frá.