Forsvarsfólk nokkurra stærstu kvikmyndafélaganna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýsa yfir stuðningi við hugmyndir Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í 35%.
Fréttablaðið skýrir frá, yfirlýsingin er svohljóðandi:
Við styðjum Sigurð Inga til góðra verka
Við undirrituð, sem erum í forsvari fyrir þrjú af stærstu kvikmyndagerðarfyrirtækjum landsins, lýsum hér vilja okkar til samstarfs um áframhaldandi uppbyggingu kvikmyndagerðar sem arðskapandi þekkingarstarfsemi á Íslandi.
Kvikmyndaklasinn skapar nú þegar hátt í fjögur þúsund bein og afleidd störf hérlendis og hefur alla burði til að vaxa og dafna – íslensku atvinnulífi, samfélagi og menningu til heilla. Þennan vaxtarsprota okkar kvikmyndagerðarfólks þarf að rækta, styrkja og styðja við í samræmi við nýsamþykkta kvikmyndastefnu sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett.
Við fögnum yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar um hækkun á endurgreiðslu af kostnaði við kvikmyndagerð á Íslandi úr 25% í 35%. Slíkt myndi jafna samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar og gera okkur kleift að byggja upp aðstöðu og innviði á við það sem best gerist.
Við styðjum Sigurð Inga til góðra verka!
Fh. RVK Studios
Baltasar Kormákur
Fh. Pegasus
Lilja Ósk Snorradóttir
Erlendur Cassata
Snorri Þórisson
Fh. Truenorth
Leifur Dagfinnsson