[Stikla] Ný bíómynd, HARMUR, Íslandsfrumsýnd á RIFF

Ný íslensk kvikmynd í fullri lengd, Harmur, eftir Ásgeir Sigurðsson og Anton Karl Kristensen verður Íslandsfrumsýnd á RIFF hátíðinni sem hefst í lok mánaðarins.

Harmur fjallar um hinn 20 ára gamla Óliver sem býr með móður sinni og yngri bróður í niðurníddu hverfi í Reykjavík. Hann reynir að tengjast móður sinni nánari böndum en einn dag leiða gjörðir hennar til skelfilegra afleiðinga.

Ásgeir fer með aðalhlutverkið en í öðrum helstu hlutverkum eru Jónas Björn Guðmundsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Aldís Amah Hamilton, Mikael Emil Kaaber, Jóel Sæmundsson og Ahd Tamimi.

Ásgeir, Anton Karl, Halldór Ísak Ólafsson og Elvar Elvarsson framleiða, en handritið er eftir Ásgeir. Myndin er alfarið fjármögnuð af þremur fyrstnefndu. Þetta eru allt ungir menn, Anton nam kvikmyndagerð við New York Film Academy en Ásgeir hefur unnið vefefni fyrir RÚV.

Myndin hefur að undanförnu tekið þátt í tveimur hátíðum, annarsvegar Nordic International Film Festival í Brooklyn og hinsvegar Flickers Rhode Island Film Festival. Á þeirri síðarnefndu hlaut hún aðalverðlaunin í flokki leikstjórauppgötvana (Directorial Discovery).

Stiklu myndarinnar má sjá hér að neðan.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR