Á þeirri afbragðs efnisveitu Ísland á filmu, sem Kvikmyndasafn Íslands rekur, má meðal annars finna 24 mínútna perlu Ósvaldar Knudsen, Halldór Kiljan Laxness frá 1962.
Alls eru 14 heimildamyndir eftir Ósvald á veitunni núna frá árunum 1947-1974, en eitthvað kann enn að vanta. Ítarlega skrá yfir verk Ósvaldar hef ég ekki fundið.
Ósvaldur er um margt áhugaverður kvikmyndagerðarmaður, ekki aðeins fyrir þær heimildir sem hann skilur eftir sig heldur einnig hvað varðar stíl og fagurfræði.
Myndir hans eru vissulega að mestu klassískar í formi, en um leið er að finna í þeim sterkan módernískan anda, sem birtist ekki síst í tónlist Magnúsar Blöndals Jóhannssonar og hvernig hún er notuð.
Flestar eru myndirnar stuttar en hnitmiðaðar, breiðar strokur í narratívunni, en um leið er auga hans næmt fyrir smáatriðum.
Stór hluti af gildi mynda hans felst auðvitað í skráningunni sem slíkri og tímanum sem hefur liðið, þannig séð verða þær aðeins verðmætari. En kvikmyndagerðin sjálf er einnig mjög heillandi, blæbrigðarík og nostursöm.
Aðrir hápunktar af myndum Ósvalds á ísland á filmu eru til dæmis Þórbergur Þórðarson (1961), 18 mínútna mynd um rithöfundinn og engu síðri, Hornstrandir (1954) hálftíma einstök og undurfalleg heimild um veröld sem var – sem og klassíkin Sveitin milli sanda (1964) sem segir frá náttúru og mannlífi í Öræfasveit um miðja síðustu öld.
En allar eru þessar myndir stórmerkilegar og einstakar, hver á sinn hátt.