Nordisk Panorama, árleg kvikmyndahátíð og fjármögnunarmessa, hefur síðastliðin 30 ár verið einn helsti vettvangur fyrir framgang og kynningu norrænna heimilda- og stuttmynda. Norræna ráðherranefndin hefur nú ákveðið að hætta stuðningi við hátíðina frá næsta ári, en stuðningurinn hefur numið um 60% af rekstrarfé Nordisk Panorama.
„Við erum stökkpallurinn sem lætur norræna kvikmyndagerðarmenn ná út fyrir landamæri sín og út í heim. Kvikmyndagerðarmenn þurftu á stuðningi okkar að halda meðan allt lék í lyndi. Núna, þegar greinin stendur frammi fyrir endalausum áskorunum, mun þessi ákvörðun Norrænu ráðherranefndarinnar hafa afgerandi áhrif á mikilvægasta viðburð greinarinnar í okkar heimshluta,“ segir Anita Reher, stjórnandi Nordisk Panorama.
Eftirspurnin eftir því að taka þátt í Nordisk Panorama Pitching Forum sem Norræni sjónvarps- og kvikmyndasjóðurinn lýsti í skýrslu sinni sem „lykilviðburði í greininni“ innan Norðurlandanna, þar sem ný kvikmyndaverk eru kynnt fyrir fjármögnunaraðilum, er meiri en nokkru sinni fyrr, segir í tilkynningu frá Nordisk Panorama.
Þar segir einnig:
Þörfin fyrir þennan vettvang mun einungis vaxa eftir því greinin nú reynir að koma undir sig fótunum að nýju. Flest fyrirtækin sem njóta góðs af Nordisk Panorama eru sjálfstæðir framleiðendur sem treysta að verulegu leiti á norræna samframleiðslu og samfjármögnun til þess að fullgera kvikmyndaverk sín.
Helsta markmið Nordisk Panorama er að hvetja til samstarfs og samframleiðslu á vönduðum heimilda- og stuttmyndum frá Norðurlöndum. Hátíðin var einnig sett á laggirnar í þeim tilgangi að auðvelda nýjum kynslóðum kvikmyndagerðarmanna, með nýjar raddir, að hasla sér völl í kvikmyndageiranum. Innan ramma NP er rými fyrir sjálstæða kvikmyndagerðarmenn til að koma kvikmyndum sínum á framfæri og fá styrki úr opinberum sjóðum innan Norðurlandanna, sem og utan þeirra.
Nordisk Panorama tengir auðlindirnar saman – skapandi aðila, tengslanet greinarinnar og alþjóðlega fjármögnunaraðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndasjóðum, streymisveitum og einkareknum aðilum sem gera norrænum kvikmyndagerðarmönnum kleift að ná árangri á heimsvísu. Fulltrúar kvikmyndagerðar sem Nordisk Panorama þjónar eru sendiherrar fyrir Norðurlöndin á alþjóðlegum vettvangi. NP hefur gefið norrænum kvikmyndagerðarmönnum aukinn sýnileika og vigt í kvikmyndaiðnaðinum á heimsvísu.