Morgunblaðið um SYSTRABÖND: Vandað til verka á öllum póstum

Silja Björk Huldudóttir hjá Morgunblaðinu skrifar um þáttaröðina Systrabönd (Sjónvarp Símans) og segir meðal annars: „Hér birtast okkur m.a. breyskar konur sem auðveldlega má hafa samúð með á sama tíma og gjörðir þeirra eru fordæmdar.“ Athugið að spilliefni er að finna í umsögninni.

Silja Björk skrifar:

Hvaða áhrif hefur það á fólk að lifa í lífslygi? Hvenær hættir manneskja, sem telur sig þurfa að hylma yfir fortíð sína, að ljúga aðeins að öðrum og fer einnig meðvitað eða ómeðvitað að ljúga að sjálfri sér? Hvernig réttlætum við gjörðir okkar – nú eða afskiptaleysi sem haft getur afdrifaríkar afleiðingar? Hvaða aðferðum beitum við til að deyfa sektarkenndina, kæfa skömmina og útiloka óttann við fordæmingu annarra? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem sjónvarpsþáttaröðin Systrabönd í leikstjórn Silju Hauksdóttur veltir upp. Þættina, sem eru sex talsins, skrifaði Silja í samvinnu við Björgu Magnúsdóttur, Jóhann Ævar Grímsson og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Þeir fóru í sýningu í heild sinni um páskana í Sjónvarpi Símans Premium.

Ég ráðlegg þeim sem eiga eftir að sjá sjónvarpsþáttaröðina og ekki vilja vita of mikið um innihald hennar að hætta lestri hér.

Þættirnir gerast að stærstum hluta í núinu, en reglulega birtast brot úr fortíðinni og fer slíkum minningabrotum fjölgandi eftir því sem fram vindur. Þáttaröðin fer rólega af stað með kynningu aðalpersóna. Elísabet, Anna Sigga og Karlotta eru allar um fertugt og voru samlokuvinkonur þegar þær voru á alast upp í Ólafsvík þó leiðir hafi síðan að mestu skilið. Elísabet (Lilja Nótt Þórarinsdóttir/Thea Snæfríður Kristjánsdóttir) virðist hafa alist upp á fyrirmyndarheimili og valið að feta í fótspor föður síns og gerast prestur. Út á við virðist hún hamingjusamlega gift Pétri (Sveinn Geirsson), syni varðstjórans í Ólafsvík, og er nýsnúin aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Meðal þeirra sem mæta í fermingarfræðslu til hennar er stjúpdóttirin Viktoría (Gríma Valsdóttir), sem eiginmaðurinn eignaðist í framhjáhaldi.

Anna Sigga (Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir/Iðunn Ragnarsdóttir) starfar sem kokkur á veitingahúsi, en dreymir um að opna veisluþjónustu sem býður upp á fjölskylduvænni vinnutíma. Hún er einstæð móðir unglingspiltsins Sigga (Ágúst Örn B. Wigum) og hugsar einnig um móður sína, Kristrúnu (Sóley Elíasdóttir), sem glímir við erfið veikindi. Samskipti mæðgnanna eru enn lituð af því ofbeldi sem viðgengst á æskuheimilinu í Ólafsvík. Karlotta (Ilmur Kristjánsdóttir/Auður Aradóttir), sem er barnlaus, starfar sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi. Hún er óvirkur fíkill í bata, sem sækir sér hugarró í handavinnu og jóga. Allar þrjár hafa þær valið sér starf sem felur í sér að hlúa að manneskjunni bæði andlega og líkamlega.

Snemma í fyrsta þættinum finnast, skammt frá heimabæ kvennanna þriggja, líkamsleifar táningsstúlkunnar Hönnu (Sóley Ásta Andreudóttir) sem hvarf sporlaust á miðjum tíunda áratugnum og ekkert hefur spurst til síðan með tilheyrandi sorg fyrir Rut, móður hennar (María Heba Þorkelsdóttir). Áverkar á höfuðkúpunni benda til þess að þungt höfuðhögg hafi orðið Hönnu að bana. Í endurminningabrotum verður fljótt ljóst að samskipti stúlknanna fjögurra enduðu með voveiflegum hætti sumarnótt eina fyrir aldarfjórðungi.

Þó þættirnir séu drifnir áfram af sakamálarannsókn lögreglutvíeykisins Veru (Halldóra Geirharðsdóttir) og Einars (Jónmundur Grétarsson), vita áhorfendur allan tímann hverjar eru sekar. Hér er því ekki spurt hver framdi glæpinn, heldur miklu fremur hvers vegna var hann framinn og hverjar hafa afleiðingarnar verið fyrir gerendurna, móður þolandans og bæjarfélagið. Við fáum að fylgjast með angist kvennanna þriggja yfir því að upp um þær komist með þeim afleiðingum að þær þurfi að taka út refsingu sína samkvæmt lögum, en líka ótta þeirra við að sannleikurinn muni þýða að lífi þeirra eins og þær þekkja það sé lokið. Á sama tíma glíma þær við djúpstæða sektarkennd, enda fær engin manneskja flúið sjálfa sig þó vissulega sé hægt að setja upp grímu út á við og flytjast landshorna á milli.

Handritshöfundarnir eiga sérstakt hrós skilið fyrir að skrifa mörg bitastæð og áhugaverð kvenhlutverk. Hér birtast okkur m.a. breyskar konur sem auðveldlega má hafa samúð með á sama tíma og gjörðir þeirra eru fordæmdar. Sérlega áhugavert er að fylgjast með dýnamíkinni í samskiptum Elísabetar, Önnu Siggu og Karlottu í núinu, því þær hafa mismikilla hagsmuna að gæta sem skapar ákveðið ójafnræði í tengslum þeirra. Af ýmsum ástæðum er Elísabet sú sem hefur mestu að tapa og er því líka sú sem gengur hvað lengst í því að hylma yfir verknað þeirra. Tilraunir hennar til að halda öllu sléttu og felldu á yfirborðinu birtist í stjórnsemi hennar og því hvernig hún teflir Önnu Siggu og Karlottu stöðugt hvorri á móti annarri til að skapa sjálfri sér skjól.

Annað áhugavert rannsóknarefni handritshöfundanna er stéttaskiptingin sem birtist í Systraböndum . Þættirnir vekja okkur þannig til umhugsunar um það hvort og hvers vegna sumir þykja merkilegri pappír en aðrir. Hefði hvarf Hönnu verið tekið alvarlegar og leitin orðið viðameiri ef um hefði verið að ræða dóttur prestsins eða son varðstjóra bæjarins í stað dóttur drykkfelldrar einstæðrar móður sem nýflutt var í plássið? Ef allar manneskjur eru jafnar fyrir guði, hvers vegna sættum við okkur þá við kerfisbundið ójafnræði sem er mannanna smíð?

Loks má nefna að handritshöfundarnir vinna afar vel með speglun milli kynslóða, sem birtist m.a. í því hvernig stjúpdóttir Elísabetar og sonur Önnu Siggu lenda í vandræðum á djamminu. Sjónum er þannig markvisst beint að neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu sem slævt getur dómgreind fólks með alvarlegum afleiðingum, þó ekki séu þær alltaf banvænar. Einnig sjáum við þau neikvæðu áhrif sem þöggun eldri kynslóðarinnar getur haft.

Silja Hauksdóttir sýnir hér og sannar hversu góður leikstjóri hún er, því leikhópurinn allur skilar frábærri frammistöðu. Eðli málsins samkvæmt mæðir mest á Lilju Nótt Þórarinsdóttur, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Ilmi Kristjánsdóttur í hlutverkum Elísabetar, Önnu Siggu og Karlottu. Allar ná þær að miðla sársaukanum, sorginni, óttanum og skömminni með svo áhrifaríkum hætti að það lætur engan ósnortinn. Líkt og í kvikmyndinni Agnes Joy miðlar þögnin oft meiru en löng samtöl og Silja leyfir okkur að lesa tjáninguna úr andlitum persóna t.d. meðan þær sitja undir stýri eða hlusta á hljóðupptökuna af því sem gerðist nóttina örlagaríku. Senur flæða iðulega hver ofan í aðra með þeim hætti að hljóðið byrjar áður en við sjáum persónurnar sem tala, sem kallast markvisst á við endurlitin úr fortíðinni þar sem sömu minningabrotin frá sumarnóttinni endalausu eru líkt og spiluð í hugum æskuvinkvennanna aftur og aftur og aftur. Hljóðheimur Jófríðar Ákadóttur er sérlega áhrifaríkur þar sem drynjandi bassinn líkir eftir hröðum hjartslætti og langir skerandi tónar vekja ónotakennd sem kallast sterklega á við erfitt umfjöllunarefnið. Hér er ljóst að vandað hefur verið til verka á öllum póstum og er þáttaröðin listafólkinu til mikils sóma.

Stuttu eftir frumsýningu seríunnar fór af stað umræða á samfélagsmiðlum þess efnis að líkindi væru milli Systrabanda og leikritsins Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur sem sýnt var í Borgarleikhúsinu fyrir sex árum og undirrituð hreifst af. Verkin eiga það vissulega sameiginlegt að í forgrunni eru þrjár stúlkur sem ráðist hafa á þá fjórðu með alvarlegum afleiðingum. Sá grundvallarmunur er hins vegar á verkunum tveimur að í Hystory virðast stúlkurnar hafa skipulagt árásina í hefndarskyni vegna ástarsorgar einnar úr hópnum auk þess sem strax komst upp um verknaðinn með þeim afleiðingum að mál þeirra rataði fyrir dóm og hefur þannig fylgt þeim út í lífið. Ekki er hægt að sjá að árásin í Systraböndum sé með neinum hætti skipulögð heldur fremur afleiðing rifrildis á fylleríi þar sem talið beinist aðallega að foreldrum stúlknanna, auk þess sem verknaðurinn kemst ekki upp fyrr en löngu seinna. Fyrir vikið er jafnt söguuppleggið, persónusköpunin og drifkrafturinn í samskiptum persóna gjörólíkt. Vel kann hins vegar að vera að höfundar beggja listaverka séu innblásnir af sömu árás unglingsstúlkna í raunveruleikanum. Alvarleg árás þriggja unglingsstúlkna á 15 ára stúlku í miðborg Reykjavíkur haustið 1993, með þeim afleiðingum að hún lamaðist, situr vafalítið enn í mörgum, sem og stórfelld árás fjögurra unglingsstúlkna í miðbæ Akraness í upphafi árs 1996 á 16 stúlku sem hlaut lífshættulega höfuðáverka, þeirra á meðal höfuðkúpubrot. Af nýlegri dæmum má nefna hópárás unglingsstúlkna á 15 ára stúlku í Heiðmörk árið 2009 þar sem þrjár stúlkur höfðu sig mest í frammi og töldu sig eiga óuppgerðar sakir við þolandann og loks hættuleg árás þriggja unglingsstúlkna á þá fjórðu á bílaplani Langholtsskóla árið 2016.

Fréttir af ofbeldisárásum vekja ávallt óhug, ekki síst þegar börn og ungmenni eru í hópi gerenda. Auðvelt er að skrímslavæða gerendurna, en dæmin sýna okkur hins vegar að þau sem ofbeldi beita eru iðulega oft sjálf líka þolendur. Þó reiði í garð gerenda sé eðlileg tilfinning er hún, í bland við fordæmingu og útskúfun, ekki gagnleg í baráttunni við ofbeldi. Þar skipta forvarnir, aukið aðhald, tafarlaus úrræði, raunverulegur stuðningur, samtöl og virk hlustun mestu máli.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR