Netflix hefur sent frá sér nokkrar ljósmyndir úr þáttaröðinni Kötlu, sem væntanleg er á efnisveituna fljótlega. Baltasar Kormákur framleiðir þættina og leikstýrir einnig ásamt Þóru Hilmarsdóttur og Berki Sigþórssyni.
„Einu ári eftir eldgos í Kötlu hefur lífið í friðsæla smábænum Vík breyst til muna. Eldstöðin er ennþá virk og jökulísinn ofan við gosopið að einhverjum hluta bráðnaður,“ segir í tilkynningu. „Bærinn hefur verið rýmdur og eins svæðið í kring en einungis er hægt að komast þangað með því að fara yfir Markarfljót. Þeir örfáu bæjarbúar sem eftir eru ná að halda nauðsynlegri þjónustu í samfélaginu gangandi og þrátt fyrir frábæra staðsetninguna er Vík orðin að nokkurs konar draugabæ. Ástandið verður svo enn ógnvænlegra þegar dularfull fyrirbæri byrja að koma undan jöklinum og hafa í för með sér afleiðingar sem enginn gat séð fyrir.“