Markelsbræður og aðrir aðstandendur Síðustu veiðiferðarinnar hafa nú boðað framhaldsmynd, Allra síðustu veiðiferðina. Stefnan er að hefja upptökur í júní. Morgunblaðið segir frá.
Á mbl.is segir:
Tökur fara fram í og við Laxá í Aðaldal. Samningar hafa verið frágengnir að sögn aðstandenda myndarinnar. Leikarahópurinn er öflugur eins og í fyrstu myndinni, en þeir Þorsteinn Bachmann, Halldór Gylfason, Þröstur Leó Gunnarsson, Hjálmar Hjálmarsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Halldóra Geirharðsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir verða öll á sínum stað og í sömu hlutverkum. Þá bætist eitt stórt nafn í hópinn en það er enginn annar en Sigurður Sigurjónsson sá öflugi og ástsæli leikari.
Handrit liggur fyrir og er myndin sjálfstætt framhald fyrri myndarinnar. Leikstjórar eru þeir Markel-bræður, Örn Marino Arnarson og Þorkell Harðarson. Reiknað er með að myndin verði frumsýnd síðla hausts eða í vetur.
Lítið er vitað um söguþráð en þó staðfestu Þeir Örn Marino og Þorkell að leikararnir lendi áfram í sjálfskipuðum vandræðum og setji sveitina í uppnám. Ein aðalpersóna myndarinnar, Valur Aðalsteins fjárfestir, sem Þorsteinn Bachmann leikur, er orðinn ráðherra og flækjast málin þá enn frekar.
Síðasta veiðiferðin var vinsælasta kvikmynd á Íslandi í fyrra og ljóst að framhaldsins er beðið með nokkurri eftirvæntingu.
„Auðvitað er meiri pressa núna en síðast. Við þurfum að toppa okkur og ég hef fullar væntingar til þess að við gerum það, með þessu einvalaliði leikara og góðu handriti,“ sagði Örn Marino leikstjóri í samtali við Sporðaköst. Þorkell, sem einnig leikstýrir myndinni tók undir með Erni og bætti við að nú væru þessar persónur orðnar til í huga býsna margra og því væru möguleikarnir nú stærri og fleiri. Hann glotti að lokum.