Nokkur kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslufyrirtæki hafa ákveðið að stöðva starfsemi sína í ljósi núgildandi sóttvarnareglna, sem innihalda tíu manna fjöldatakmörk og tveggja metra fjarlægðarreglu. Önnur hafa hins vegar náð að halda áfram starfsemi sinni með auknum sóttvarnaráðstöfunum, meðal annars með skiptingu myndvera í sóttvarnahólf.
Þetta kemur fram í Kjarnanum og þar segir einnig:
Hlé hjá Sagafilm
Anna Vigdís Gísladóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, segir fyrirtækið hafa gert hlé á þeim kvikmyndatökum sem ekki rúmast innan tíu manna reglunnar. „Sagafilm hefur átt í mjög góðu samstarfi við sóttvarnalækni og ráðuneytið um reglur sem unnið hefur verið eftir við kvikmyndatökur frá því í vor. Við könnuðum með undanþágur þegar þessar nýju reglur tóku gildi en fengum skýr svör að þær yrðu ekki veittar. Við virðum það að sjálfsögðu,“ sagði Anna Vigdís.
Tökur á Ófærð í gangi
Framleiðslufyrirtækið RVK Studios hefur hins vegar náð að halda áfram tökum á sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð, þrátt fyrir þessar takmarkanir. Baltasar Kormákur, leikstjóri þáttanna, segir gott samstarf hafa verið með sóttvarnayfirvöldum á síðustu mánuðum og vísar meðal annars til góðra umsagna lögreglunnar á Austurlandi á vinnuháttum fyrirtækisins í síðasta mánuði.
Baltasar bætir við að fyrirtækið vinni með streymisrisanum Netflix, sem geri miklar kröfur til þess að sóttvarnir séu í lagi, auk þess sem starfsfólk hans sé hitamælt daglega. Einnig segir hann að hægt hafi verið að halda áfram með upptökur í myndveri með því að skipta því í mörg sóttvarnahólf.
RÚV með undanþágu
Fréttastofa og framleiðsludeild RÚV hefur hins vegar fengið undanþágu frá núgildandi sóttvarnalögum. Þar mega nú vera allt að 20 manns í hverju rými. Í tölvupósti sem starfsmönnum RÚV barst vegna undanþágunnar kemur fram að framleiðsludeildin sé hluti af því almannaviðbragði sem er í gangi í ljósi samkomutakmarkanna, þar sem „andlega hlið landans“ sé mikilvægt hagsmunamál.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir heilbrigðisráðuneytið hins vegar að ákveðið hafi verið að veita undanþáguna í ljósi þess lögbundna öryggishlutverks sem RÚV gegnir í miðlun upplýsinga. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í samtali við Kjarnann að undanþágunni sé aðallega beitt í fréttastofu RÚV, en örfá tilvik geti einnig komið fram þar sem óhjákvæmilegt er að fjölga starfsmönnum í sama rými. Þá bætir hann við að hann telji að framleiðsludeildin hafi ekki enn þurft að nýta þessa heimild.