Bergmál Rúnars Rúnarssonar er tilnefnd fyrir Íslands hönd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilkynnt var um þær fimm kvikmyndir sem hljóta tilnefningu að þessu sinni á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í dag. Verðlaunin verða afhent þriðjudaginn 27. október næstkomandi í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
Myndirnar eru:
Ísland: BERGMÁL (titill á ensku: Echo) eftir Rúnar Rúnarsson (leikstjórn / handrit), Rúnar Rúnarsson, Live Hide og Lilja Ósk Snorradóttir (framleiðendur)
Danmörk: UNCLE (titill á frummáli: Onkel) eftir Frelle Peterson (leikstjórn / handrit), Marco Lorenzen (framleiðandi)
Finnland: DOGS DON’T WEAR PANTS (titill á frummáli: Koirat eivät käytä housuja) eftir Jukka-Pekka Valkeapää (leikstjórn / handrit), Juhana Lumme (handrit), Aleksi Bardy og Helen Vinogradov (framleiðendur)
Noregur: BEWARE OF CHILDREN (titill á frummáli: Barn) eftir Dag Johan Haugerud (leikstjórn / handrit), Yngve Sæther (framleiðandi)
Svíþjóð: CHARTER (titill á frummáli: Charter) eftir Amanda Kernell (leikstjórn / handrit), Lars G. Lindtröm og Eva Åkergren (framleiðendur)
Í umsögn íslensku dómnefndarinnar (Hilmar Oddsson, Helga Þórey Jónsdóttir, Börkur Gunnarsson) segir um Bergmál:
Í Bergmáli eftir Rúnar Rúnarsson mætast örsögur sem gerast samtímis kringum jól og áramót, sem er bæði viðkvæmur og hátíðlegur tími. Tími sem hvetur fólk til að endurskoða líf sitt og vekur meiri söknuð en vanalega eftir fjarstöddum ástvinum. Hver saga hefur opið upphaf og opin endalok, hver og ein er eins og sneiðmynd af tilveru.
Bergmál fjallar um efnishyggju og neyslusamfélagið, samveru og einmanaleika, ást og ofbeldi, líf og dauða, sem hefur sinn tíma. Hinu trúarlega og hátíðlega er stillt upp gegn því lítilvæga og hversdagslega, sjálfu lífinu. Ennfremur dregur myndin athygli áhorfandans að umdeildari viðfangsefnum á borð við málefni flóttafólks. Bergmál er beitt og djúp greining á samfélagi okkar og þess mörgu lögum og frásagnaraðferðina má kalla ljóðrænt raunsæi, óð til hversdagsins, fegurðar hans og grimmdar. Þetta er afar íslensk mynd sem þó hefur algilda skírskotun.
Handritið er krökkt af fegurð og ljóðrænu, hver sena inniheldur eina, kyrrstæða töku, eitt fagurlega samansett og þaulhugsað sjónarhorn, sterkt myndmál og afburða kvikmyndagerð. Tónlistin er lágstemmd en þó áhrifamikil.