Ríkisendurskoðun skoðar endurgreiðslukerfið, ekkert sem bendir til misnotkunar

Ríkisendurskoðun sendi á dögunum frá sér úttekt á endurgreiðslukerfi kvikmynda, en úttektin var gerð vegna ábendingar um hugsanlega misnotkun. Það er þó ekki niðurstaða skýrslunnar. SÍK hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið.

Skýrslu Ríkisendurskoðunar má lesa hér.

Í yfirlýsingu SÍK segir:

Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) fagna niðurstöðum nýútkominnar skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfi kvikmynda. Öll verkefnin sem Ríkisendurskoðun rannsakaði voru unnin lögum samkvæmt og ekki fundust neinar vísbendingar um misnotkun á endurgreiðslukerfi kvikmynda samkvæmt rannsóknarniðurstöðum stofnunarinnar. Skýrslan tekur því af allan vafa um hvort misnotkun á endurgreiðslukerfi kvikmynda hafi viðgengist.

SÍK gerir engar athugasemdir við þær tillögur Ríkisendurskoðunar að skilyrða þurfi endurgreiðslur við rétt skattskil og að samstarf við embætti ríkisskattstjóra verði eflt. Lög nr. 43/1999 vísa skýrt til þess að allur kostnaður sem fellur til og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri fari eftir ákvæðum laga um tekjuskatt. Hefur framkvæmdin því nú þegar verið lögum samkvæmt og framleiðslufyrirtæki fylgt þeim til hlýtar líkt og staðfest er í skýrslunni. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er jafnframt fjallað um mikilvægi endurgreiðslukerfisins fyrir samkeppnishæfni Íslands. Fram kemur að árið 2016 hafi löggjafinn talið ástæðu til þess að hækka hlutfall endurgreiðslu til kvikmyndaframleiðslu. Ástæðurnar voru meðal annars þær að gæta þyrfti að samkeppnishæfni Íslands þegar kæmi að því að laða að erlend verkefni á sviði framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis.

Mikilvægt er að hafa í huga að kvikmyndaframleiðendur búa við ófyrirsjáanleg starfsskilyrði sem helgast meðal annars af eftirtöldum þáttum: Erfiðum starfsskilyrðum, smæð markaðarins, takmörkuðu fjármagni til greinarinnar, gengisþróun og almennum verðhækkunum á þjónustu innanlands. Endurgreiðslukerfi til kvikmyndaframleiðslu sem byggir á lögum nr. 43/1999 hefur þróast með tilstilli framkvæmdar laganna síðastliðin 10 ár í samræmi við vilja löggjafans til þess að auka samkeppnishæfni landsins. Rétt er að minna á að hér er ekki um styrki að ræða, í eiginlegum skilningi þess orðs, heldur endurgreiðslu á hluta af þeim kostnaði sem þegar hefur fallið til vegna framleiðslu kvikmyndaverka. Þegar að endurgreiðslu kemur hefur þegar verið greitt inn í ríkissjóð umtalsvert meira en endurgreiðslan nemur, eins og ótal skýrslur hafa sýnt fram á. Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hafa þannig eingöngu jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð ríkissjóðs og eru án áhættu fyrir ríkissjóð því skila þarf endurskoðuðum fullnaðaruppgjörum áður en til endurgreiðslu kemur. Slíkt kerfi er einfalt og gegnsætt og hefur þessi framkvæmd verið talin einn helsti styrkur þessa kerfis af erlendum aðilum sem hafa framleitt kvikmyndir á Íslandi.

RÚV ræðir við Sigríði Mogensen, forstöðumann hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, um málið.

„Það kemur þarna ein ábending sem leiðir til þessarar úttektar og niðurstaðan er alveg skýr; það er engin misnotkun á kerfinu,“ segir Sigríður.

Í skýrslunni kemur aftur á móti fram að á undanförnum árum hafi vægi sjónvarpsefnis aukist innan endurgreiðslukerfisins og tilvikum fjölgað þar sem álitamál er hvort efnið falli að markmiðum laga og reglugerðar um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmynda. Þar séu til að mynda matreiðsluþættir, ýmsir skemmtiþættir og efni sem ætla megi að sé einungis ætlað til sýningar í eigin dreifikerfi sjónvarpsstöðvanna. Sigríður segir að skilgreining á því hvaða verkefni falli undir lögin og reglugerðina hafi hugsanlega verið of víð og nú sé unnið að nýrri skilgreiningu í iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

„En það breytir ekki þeirri staðreynd að gagnvart kvikmyndaiðnaðinum sjálfum þá hefur ekki átt sér stað nein misnotkun á kerfinu,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að þeir níu milljarðar sem hafi farið í endurgreiðslukerfið frá árinu 2001 hafi skilað sér margfalt til baka. „Fjölmargar skýrslur og úttektir allt frá árinu 2006 hafa staðfest efnahags- og starfshvata þessa kerfis þannig að það má segja að það leiði af sér mikla verðmætasköpun sem er mun meiri en endurgreiðslurnar nema,“ segir Sigríður.

Sjá nánar hér: Ekkert sem bendi til misnotkunar | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR