„Móðurást“ vinnur Northern Wave

Ari Allansson tekur við verðlaunum fyrir bestu íslensku stuttmyndina úr hendi Daggar Mósesdóttur á Northern Wave 2019 (mynd: Regina Mosch).

Northern Wave kvikmyndahátíðin fór fram um helgina í Frystiklefanum á Rifi. Veitt voru fern verðlaun á hátíðinni. Verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina fóru til Ara Allanssonar fyrir stuttmyndina Móðurást.

Verðlaun fyrir besta íslenska tónlistarmyndbandið fór til Hrundar Atladóttur fyrir lag Borgars Magnasonar, Come Closer. Verðlaun fyrir bestu alþjóðlegu stuttmyndina fór til Kato De Boeck fyrir stuttmyndina Provence. Verðlaun fyrir besta fiskiréttinn fór til Kolbrúnar Pálsdóttur sem framreiddi grafna lúðu með dill dressingu fyrir gesti hátíðarinnar.

Í aðdraganda hátíðarinnar var haldin tveggja daga vinnustofa í Grundarfirði undir yfirskriftinni Norrænar stelpur skjóta. 12 ungum kvikmyndagerðarkonum frá Grænlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi og Íslandi var boðið að taka þátt í vinnustofunni þar sem þær fengu þjálfun frá fagkonum frá fyrrnefndum löndum.

Að auki var boðið upp á meistaraspjall með Bergsteini Björgúlfssyni, tökumanni (Hross í oss, Kona fer í stríð, Ófærð. Meistaraspjallinu var stýrt af formanni dönsku gagnrýnendasamtakanna og gagnrýnanda hjá Politiken, Nanna Frank Rassmusen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR