Menningarsmygl um „Héraðið“: Þegar mjólkin súrnar

„Flatneskjuleg“ var fyrsta orðið sem ég heyrði um Héraðið þegar fyrstu dómarnir fóru að detta í hús. Það er eitthvað til í því – en það merkilega er að það er að einhverju leyti styrkur myndarinnar,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson á vef sínum Menningarsmygl um kvikmynd Gríms Hákonarsonar.

Ásgeir skrifar:

„Flatneskjuleg“ var fyrsta orðið sem ég heyrði um Héraðið þegar fyrstu dómarnir fóru að detta í hús. Það er eitthvað til í því – en það merkilega er að það er að einhverju leyti styrkur myndarinnar. Ef við rifjum upp íslenska krummaskuðið þá kemur nú alveg fyrir að sól slái silfri á voga – en það er ekki síður algengt að þar sé bara helvítis súld og grámi.

Hér er gráminn alls ráðandi framan af, enda samfélagið rotið, en þegar á myndina líður og samfélaginu fer eitthvað að miða áfram í sjálfskoðun sinni þá er eins og birti til og sólin slái smá silfri á lífið, enda sjáum við fegurðina oft betur þegar lífið sjálft er komið í fallegri og ærlegri farveg og fólk er reiðubúið til þess að sjá heiminn galopnum augum og með opinn huga í stað þess að humma grámann og spillinguna fram af sér.

Að því sögðu er Héraðið (eða Mjólk eins og Frakkar kalla hana svo skemmtilega) um margt gölluð mynd. Hún fjallar um mjólkurbóndann Ingu (Arndís Hrönn Egilsdóttir í prýðilegu stuði) og baráttu hennar við vonda Kaupfélagið í Erpsfirði, sem engum blöðum er um að fletta að er staðgengill Kaupfélags Skagfirðinga í sögunni.

Kaupfélagsstjórinn og hans hundtryggi aðstoðarmaður

Sigurður Sigurjónsson skapar hér fantagott illmenni úr kaupfélagsstjóranum Eyjólfi en vandi myndarinnar krystallast kannski helst í hans hundtrygga aðstoðarmanni, Leifi, sem Hannes Óli Ágústsson leikur. Þar er þó alls ekki við Hannes að sakast, heldur miklu frekar hvernig persónan er skrifuð. Hann orðar hótanir Kaupfélagsins strax í blábyrjun myndarinnar og eyðileggur því alla möguleika á hægri uppbyggingu þar sem spilling Kaupfélagsins kemur smátt og smátt í ljós. Og ástæðan fyrir því að það er ansi stór veikleiki er að þannig virkar spilling iðullega, hún liggur í loftinu, það er ýjað að henni, hún gerir lífið óbærilega þrúgandi, sem getur orðið ennþá eitraðra í smábæjum þar sem smábæjarstemmningin getur auðveldlega búið til eftirlitsþjóðfélög af verstu gerð ef andrúmsloftið verður eitrað.

Þannig að með því að sýna of snemma á spilin þá segir myndin okkur frá spillingunni frekar en að láta okkur finna fyrir henni. Við þekkjum örugglega flest spillingu eða þrúgandi vinnustaði eða samfélög og myndum tengja ágætlega við slíkt, en eiginlegar beinar hótanir eru hins vegar miklu sjaldgæfari og eru sjaldnast orðaðar fyrr en ljóst er að þessar venjubundnu aðdróttanirnar og hópþrýstingur er ekki að virka lengur.

Þótt Héraðið fjalli lítt dulbúið um Kaupfélag Skagfirðinga er hins vegar sömuleiðis alveg rétt að hún fjallar um Ísland allt, eins og enski titillinn ber kannski ennþá frekar með sér, þar sem The County verður fljótt að The Country. Þetta er smækkuð mynd af íslensku spillingunni – og jafnvel spillingu kapítalismans í vestrænum samfélögum. En þar felast gildrur sem myndinni tekst ekki alltaf að forðast. Því hverjir eru valkostirnir við Kaupfélagið? Jú, risar að sunnan eins og Bónus og Byko, og maður þarf ekki að vera sérstaklega vel lesin í viðskiptasögu síðustu áratuga til að vita að þessir risar eru engir englar heldur og í raun ekkert endilega með öllu slæmt að hafa kaupfélag sem brjóstvörn samfélagsins gegn slíkum batteríum, þótt það væri betra ef það væri ennþá alvöru samvinnufélag.

Alþjóðavæðingin laumar sér einnig örlítið inní myndina þegar Inga tjáir Eyjólfi: „Börnin mín versla ekki í Kaupfélaginu, þau kaupa allt á Amazon.“ Amazon verandi eitt svakalegasta einokunarfyrirtæki vorra tíma, fyrirtæki sem beitir einmitt keimlíkum aðferðum gagnvart bókagerðarmönnum heimsins og Kaupfélagið gerir í myndinni gagnvart bændum. Þessi athugasemd Ingu er torræð, hún virðist sjálf ómeðvituð um stöðu Amazon en maður áttar sig illa á hvort það gildi um myndina sjálfa. En í þessu birtist vandi táknsögunnar: hún þarf að takmarka sig, búa sér til lítinn míkróheim til þess að spegla þann stóra – en um leið getur verið snúið að sýna samspil allra litlu heimanna við þá stóru.

Myndin er þó enn ein staðfestingin á að íslenskir leikstjórar séu loks orðnir óhræddir við að takast á við rækilega pólitísk viðfangsefni eftir áralangt nánast pínlegt afstöðuleysi í þeim efnum. Myndin gæti vissulega alveg heitið Kona fer í stríð eða bara Kýr í staðinn fyrir Hrútar, en að því sögðu er skyldleikinn við þessar myndir aðallega á yfirborðinu. Eiginlega mætti myndin vera meira eins og Hrútar, þetta áþreifandlega ástar/haturs-samband bræðranna og sú sterka tilfinning fyrir afskekktu lífi einstæðingsins mætti stundum vera áþreifanlegra í Héraðinu, það er undirbyggingin sem myndin þarf á að halda.

En að öllu framansögðu, þrátt fyrir alla gallana, þá er merkilega mikið spunnið í myndina. Hún er einfaldlega eitthvað svo blátt áfram í því hvernig hún tekst á við viðfangsefni sitt, bláeyg og einlæg – og er nánast Capraísk í þeirri nálgun.

Þessi naíva en blátt áfram barátta lítilmagnans gegn spilltu yfirvaldi sem Capra gerði svo eftirminnileg skil í myndum á borð við Mr. Smith Goes to Washington má að einhverju marki finna í Héraðinu, jafnvel þótt fagurfræðin sé allt önnur, og sést best á því að myndin er einna sterkust í hálfgerðri ræðukeppni Ingu bónda og Eyjólfs Kaupfélagsstjóra, sérstaklega þegar í ljós kemur að þrátt fyrir alla hina augljósu spillingu hefur Eyjólfur kaupfélagsstjóri ýmislegt til síns máls. Hann er kannski djöfull, en mögulega mun djöfullinn sem þú þekkir reynast betri en sá andlitslausi að sunnan.

Sjá nánar hér: Þegar mjólkin súrnar – Menningarsmygl

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR