Nanna Kristín Magnúsdóttir: Pabbahelgar ekki fyrir alla fjölskylduna

Nanna Kristín Magnúsdóttir í Pabbahelgum.

Nanna Kristín Magnúsdóttir framleiðir, skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Pabbahelgum sem verða sýndir á RÚV í haust. Rætt var við hana í þættinum Sumarmál á Rás 1.

Úr viðtalinu:

„Hugmyndin að leikstýra sjálf vaknaði þegar við í Vesturporti gerðum myndirnar Börn og Foreldrar með Ragnari Bragasyni,“ segir Nanna Kristín við Sumarmál. „Þá opnaðist nýr heimur, kvikmyndargerð, sem mig langaði að fara út í,“ bætir hún við og í kjölfarið sagði upp starfi sínu í Þjóðleikhúsinu þar sem hún var fastráðin. Hún lærði svo handritagerð í Vancouver í Kanada og kom heim og gerði sína fyrstu stuttmynd. Tveimur stuttmyndum síðar fór svo boltinn að rúlla fyrir alvöru. „Ég skrifaði mína eigin sjónvarpsseríu, Pabbahelgar, sem verður frumsýnd á RÚV mánaðarmótin september-október, og er að leikstýra þáttum af Ráðherranum sem verður frumsýnd á RÚV eftir ár.“

Ýmsum þótti hún mjög kjörkuð að segja upp starfi sínu í Þjóðleikhúsinu, þar sem flesta leikara dreymir um fastráðningu. „Þarna var ég barnlaus. Núna fimm börnum síðar er ég ekki alveg viss hvort ég myndi taka þessa ákvörðun,“ segir Nanna Kristín hlægjandi. „Ég er einhvern veginn þannig gerð að mig langar alltaf í meiri áskoranir. Stundum fer ég fram úr mér en það er bara allt í lagi, ég kem aftur til baka.“ Um tíma hætti Nanna afskiptum af leikhúsi og kvikmyndabransanum og rak lífstílsverslun í Holtagörðum, en nokkrum mánuðum síðar kom svo hrun. Þeirri reynslu hafi þó verið gott að búa að sem kvikmyndaframleiðandi sem oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma.

Nanna segir hugmyndina að Pabbahelgum hafa kviknað þegar hún var í námi í handritsgerð í Vancouver árið 2012. „Þá voru mikið af vinum mínum að skilja, og erfiðleikar í hjónabandi hjá mörgum,“ segir Nanna Kristín sem sjálf er skilnaðarbarn. „Ég byrjaði að skrifa þá og svo skildi ég í millitíðinni. Þá lagði ég þetta aðeins til hliðar,“ segir hún, en hún vildi alls ekki fjalla um eigin skilnað. Reynslan hafi hins vegar skilað sér þegar hún hélt skrifunum áfram og gat horft á ferlið úr fjarlægð. „Þá sér maður hvað maður verður egósentrískur. Og auðvitað er þetta dramatískt. Leiðinlegt að gefa upp drauma og framtíðarsýn sem þú áttir með öðrum. En svo er það líka kómískt. Hvernig á að skipta glösunum eða púðunum. Smáatriðin og lítil stríð sem skipta í heildarsamhenginu engu máli.“

Nanna Kristín segir þættina vera eins konar gamandrama (e. dramedy). „Efnið er alvarlegt en aðstæðurnar eru spaugilegar, og eins hvernig karakterinn minn, Karen, bregst stundum við.“ Hún ákvað að leika sjálf aðalpersónuna og það er ákveðin írónía í því að hún starfar sem hjónabandsráðgjafi en er sjálf að ganga í gegnum skilnað. Takmarkið var að búa til kvenkarakter sem væri sterk en ekki karllæg. Nönnu finnst allt of algengt í sjónvarpsþáttum að þegar konur eru komnar í aðalhlutverk þurfi að karlgera þær til að sýna þær sterkar. „En við getum alveg verið sterkar á eigin forsendum. Við getum verið sterkar sem mæður þó við skömmum stundum börnin okkar. Stundum förum við að gráta frekar en að lemja í vegg eða öskra. En það má alveg sýna það. Karlar og konur, við erum bara ólík. Og það er bara hið besta mál.“

Sjá nánar hér: Pabbahelgar ekki fyrir alla fjölskylduna

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR